þriðjudagur, 12. júlí 2011

Fjölskyldan

Nú er ég búinn að fá staðfestingu á fjölskyldu í Perú. Stelpan sem hafði samband við mig gegnum facebook heitir Carolina og ég mun vera hjá fjölskyldunni hennar í borginni Trujillo. Trujillo er borg í norðurhluta Perú, 560 km frá Lima.

Fjölskyldan samanstendur af Walter (pabbi), Rosa (mamma), Carolina (systir) og Zulema (systir). Walter og Rosa reka verslun en Walter er menntaður verkfræðingur. Carolina er í háskóla og Zulema í grunnskóla. Þau eiga hund og kött og ég fæ mitt eigið herbergi. Þau hafa tekið þrjá aðra skiptinema: Mathieu frá Belgíu, Lea frá Sviss og Sulian frá Þýskalandi. Enginn í fjölskyldunni reykir og á heimilinu er ekki heitt vatn og internet.

Ég fékk mynd af þeim sem ég get ekki "copy-að" (tæknilegir örðugleikar) en ég set eitthvað hérna inn um leið og ég finn út úr því.

-Sigmar

fimmtudagur, 7. júlí 2011

Ferðaáætlun

Góðan daginn,

Í dag fékk ég ferðaáætlunina mína í hendurnar. Ég fer miðvikudaginn 7. september frá Keflavík klukkan 17:00. Þaðan flýg ég á John F. Kennedy flugvöllinn í New York og lendi þar klukkan 19:00, staðartíma. Ég fer svo aftur frá New York klukkan 23:15 og lendi á flugvellinum í Lima, Perú, klukkan 06:10, staðartíma fimmtudaginn 8. september. Þetta er sem sagt frekar langt ferðalag, enda er ég næstum að fara að ferðast yfir hálfan hnöttinn. Þegar ég lendi í Lima verður klukkan 11:10 á Íslandi og ferðalagið tekur því tæpan sólarhring.

Ég hef ekkert heyrt frá AFS varðandi fjölskyldu í Perú en stelpa frá borg sem heitir Trujillo hafði samband við mig á facebook og sagðist vera tilvonandi fóstursystir mín. Mér skilst að það sé ekkert óalgengt að fjölskyldurnar viti af skiptinemunum áður en skiptinemarnir viti af þeim. Þannig að það eru frekar miklar líkur á að ég verði í Trujillo sem er þriðja stærsta borgin í Perú en þar búa um 800.000 manns. Aðeins meira en við erum vön á Íslandi.

Meira verður það ekki í bili,
Bæ bæ