mánudagur, 17. október 2011

Vá hvað tíminn er fljótur að líða!

Jæja, núna er ég búinn að vera í Perú í næstum 6 vikur. Ég trúi því samt varla að ég sé búinn að vera svona lengi, tíminn flýgur frá mér. Það er ýmislegt búið að gerast síðan síðast, enda langur tími síðan síðast. Ég ætla að segja frá því helsta sem hefur á daga mína drifið.

Helgina 23-25 sept. var mikið um að vera.
Á föstudeginum var Día de la juventud (dagur ungdómsins) og í tilefni þess var skóladagurinn með öðruvísi sniði en venjulega. Dagurinn byrjaði á English Contest og þar sem enskukunnátta perúbúa er ekki upp á marga fiska hefði verkefnið vel hæft 5. eða 6. bekk í grunnskóla á Íslandi, sem sagt frekar auðvelt. Eftir keppnina var messa í skólaportinu. Ég held að presturinn hafi verið frekar fyndinn því á fimm mínútna fresti fór hláturbylgja um portið. Ég skildi að sjálfssögðu ekki brandarana en reyndi að hlæja með eftir bestu getu. Eftir messu bauð skólinn upp á all-you-can-eat hlaðborð af ávöxtum og við erum ekki bara að tala um þetta venjulega; epli, appelsínur og banana, heldur allskonar litríka ávexti sem ég hef aldrei á ævinni séð, hvað þá smakkað. Þeir voru samt mjög góðir. Þegar allir höfðu borðað nægju sína af gómsætum S-Amerískum ávöxtum var komið að aðal fjörinu: Gran Gymkana! Þetta gekk sem sagt þannig fyrir sig að það var keppni í einhverjum hlægilegum greinum milli bekkja í hverjum árgangi. Keppnirnar voru mjög skemmtilegar og þeir sem ekki tóku þátt (tveir úr hverjum bekk tóku þátt) lágu í hláturkrampa á hliðarlínunni, bókstaflega. Um kvöldið var svo fiesta í skólanum. Þar var mikið dansað og ég lét mig að sjálfssögðu ekki vanta á dansgólfið ;)

Á laugardeginum fór ég með öllum AFS hópnum í Trujillo að skoða minjar frá siðmenningum fyrir tíma Inkanna. Það sem stóð upp var Chan Chan svæðið. Þar skoðuðum við höll nr. 8 af 9. Þetta gekk sem sagt þannig fyrir sig að þegar nýr leiðtogi tók við ríkinu varð hann að gjöra svo vel að byggja sér nýja höll til að móðga ekki leiðtogann þar á undan. Chan Chan var borg á 20 ferkílómetra svæði á blómaskeiði Chimú siðmenningarinnar frá um 850 e.Kr. til um  1470 e.Kr. þegar Inkarnir komu í heimsókn. Höll nr. 8 sem við skoðuðum er stærsta höllin á svæðinu og þar hefur varðveist töluvert af upprunanalegum skreytingum (sjá myndir á fecebook). Eftir Chan Chan fórum við að skoða Huaca de la luna (Tunglmusterið) sem bar byggt á tímum Moche siðmenningarinnar sem síðar varð að Chimú. Huaca de la luna er gríðarstórt musteri byggt til heiðurs tunglguðinum sem var þeim mjög mikilvægur. Um kvöldið fór ég svo út að borða með fjölskyldunni.

Á sunnudeginum fórum við aftur öll saman en nú var ferðinni heitiðtil El Brujo þar sem fleiri musteri og hallir frá tímum Moche er að finna. Við skoðuðum Huaca Cao musterið sem talið er að hafa verið byggt á tímabilinu 1-500 e.Kr. Það sem er kannski merkilegast við Huaca Cao er að þar fannst múmía Señoru Cao sem ríkti yfir Moche veldinu. Múmían fannst í heilu lagi með beinagrind, húð og öllu því gulli og skartgripum sem voru grafnir með henni. Þetta er allt til sýnis á Museo Cao við hliðina á Huaca Cao sem við skoðuðum líka.

Sunnudaginn 2. október var Festival de la Primavera (Vorhátíðin) í Trujillo. Það er frekar furðulegt að vera að fagna vorinu í október en það er svona að vera skiptinemi, hlutirnir eru í flestum tilfellum ekki eins og venjulega. Við Carolina systir mín fórum að horfa á Corso de la Primavera. Skrúðganga af stærstu gerð með dönsurum, fegurðardrottningum og tónlist. Bærinn var algjörlega stappaður af fólki og mikið af túristum koma á þessum tíma til að upplifa þessa hátíð sem Trujillo er þekkt fyrir.

Föstudaginn 7. október var landsleikur milli Perú og Paraguay. Það fer allt á annan endann í Perú þegar landsliðið í fótbolta er að fara að spila. Allar auglýsingar innihalda fólk í landsliðstreyjum, þjóðarstoltið er mjög mikið. Það er varla fjallað um annað í fréttunum, lífið snýst bara um leikinn sem er framundan. Ég lét að sjálfsögðu mitt ekki eftir liggja og keypti mér landsliðstreyju til að vera með. Leikurinn fór 2-0 fyrir Perú, Jeii! Seinna um kvöldið fór ég með Carolinu og tveimur vinum hennar á El Estribo sem er svona salsaklúbbur. Þar kemur fólk saman og dansar salsa, cumbia og marengue fram á rauða nótt, mjög gaman :)

Laugardaginn 8. október fórum við fjölskyldan með combi (lítill strætó) klukkutíma upp í fjöllin frá Trujillo á eins konar sumarleyfisstað með veitingastað, sundlaug, blakvelli og fótboltavelli. Við spiluðum blak, skelltum okkur í laugina og borðuðum svo cuy (naggrís) endilega googlið cuy, ekki það girnilegasta í heimi en bragðast ágætlega. Þetta var mjög góður dagur í sólinni.

Þriðjudaginn 11. október var mér boðið í hádegismat til fjölskyldu Can, þar sem ég var í viku í upphafi dvalarinnar. Við borðuðum góðan mat og eftir matinn fór ég með allri fjölskyldunni til Huanchaco. Þar spiluðum við blak á ströndinni og gerðum tilraun til að veiða á bryggjunni. Seinni partinn var landsleikur í fótbolta milli Perú og Chile, hann fór 4-2 fyrir Chile... Nú keppast allir helstu fjölmiðlar landsins við að kenna einhverjum öðrum en liðinu sjálfu um tapið.

Laugardaginn 15. október fór ég með pabba mínum til Virú, lítils bæjar í um klukkustundar fjarlægð frá Trujillo. Þar fengum við okkur göngutúr, fórum á markaðinn og fengum okkur önd á veitingastað í bænum. Um kvöldið fórum við svo öll fjölskyldan út að borða á Veitingastaðnum. Það er veitingastaður sem mér skilst að þau séu búin að vera að fara á í 15 ár. Þau eru tryggustu viðskiptavinirnir.

Ég er farinn að æfa marinera á þriðjudögum, fimmtudögum og föstudögum. Marinera er perúskur dans og Trujillo er svona hálfgerð höfuðborg marinera. Ég ætla svo á miðvikudaginn að fara á fyrstu æfinguna mína með skólaliðinu í frjálsum.

Nokkur svona almenn atriði sem mig langar að segja frá:

Strætókerfið í Perú er mjög óskipulagt en samt í rauninni algjör snilld. Það er ekki nein tímatafla, strætóarnir koma bara þegar þeir komast en það er samt allt í lagi af því að það eru svo margir, það er alltaf einhver á leiðinni. Þetta eru samt varla strætóar, þetta eru pínulitlir 10 manna bílar. Venjulegt fargjald er 1 nuevo sol eða 40 krónur en fyrir þá sem eru í skólabúningum eru það 50 centimos eða 20 krónur. Strætó á Íslandi ætti að taka sér þessa gjadskrá til fyrirmyndar!

Á mjög mörgum heimilum í Perú er ekkert heitt vatn, svoleiðis er það hjá mér. Það þýðir að sturtan er íííísköld. Til að byrja með ætlaði ég varla að þora að fara í sturtu. Núna er það samt að lagast, ég er næstum hættur að skjálfa. Fjölskyldan mín er samt svo yndisleg að hún ætlar að koma heitu vatni á sturtuna hjá mér. Ég get ekki sagt að ég hlakki ekki til að fara í aðeins volga sturtu.

Umferðin í Perú er brjáluð. Það er í reglum AFS að við megum ekki stjórna vélknúnu ökutæki á meðan á dvölinni stendur og ég skil það bara mjög vel! Þó það mætti myndi ég ekki setja sjálfan mig í þá lífshættu að keyra um göturnar hérna. Það eru alveg línur á götunni sem skiptir henni í akreinar en það fer bara enginn eftir þeim, það reyna allir að troðast eins og hægt er til að vera aðeins á undan næsta manni. Það er mikil áhersla lögð á að þeir sem sitja frammí séu í bílbelti en yfirleitt eru ekki belti aftur í. Það er heldur ekkert vandamál ef farþegarnir eru aðeins fleiri en sætin í bílnum, þá er bara troðið. Ég taldi einu sinni 7 manneskjur stíga út úr fimm manna leigubíl og þá er bílstjórinn ekki talinn með.

Ég vona að þið hafið haft gaman af.
¡Hasta luego!

PS. Endilega smellið einu commennti :)