föstudagur, 2. mars 2012

Sumarfrí og ferðalög

Nú er orðið allverulega langt síðan ég settist síðast niður og skrifaði blogg (einhvern tímann á síðasta ári). En nú ætla ég að bæta úr því og segja ykkur frá því sem á daga mína hefur drifið hérna fyrir sunnan.

Áramótin voru frekar viðburðalítil. Á gamlársdag klæða allir sig í eitthvað gult vegna þess að það veitir víst heppni að fara inn í nýja árið í gulu :) Klukkan 12:00 skáluðum við í kampavíni og óskuðum hver öðru gleðilegs nýs árs. Svo settumst við niður og fengum okkur Las doce uvas (vínberin tólf) sem eiga líka að veita heppni og velgengni, pan con chancho (samlokur með svínakjöti), panetón (jólakakan góða) og chocolate caliente (heitt súkkulaði). Þegar þessu var lokið settumst við niður fyrir framan sjónvarpið og spjölluðum fram eftir nóttu. Það var eitthvað smá um flugelda en við sprengdum samt ekki neitt. Saknaði mikið skotlgleði Íslendinga!

Janúarmánuður var frekar rólegur. Ég hélt áfram að dansa marinera og salsa, fór á ströndina, fór á brimbretti, skipulagði ferðalög febrúarmánaðar og slappaði af. Mestallur janúar leið bara svona lullandi í sólinni. Ég tók samt þátt í einni marinerakeppni á vegum dansskólans míns þar sem við Zulema lenntum í öðru sæti. Danskennarinn veitti mér líka sérstaka viðurkenningu fyrir að hafa lagt metnað og áhuga í þennan þjóðardans Perú :)

Það var miklu meira um að vera í febrúar.

Þann 4. febrúar kom Guðbjartur, hinn íslenski srákurinn á vegum AFS í Perú, í heimsókn til mín hérna í Trujillo. Hann á sjálfur heima í Piura sem er um 7-8 tíma norður af Trujillo. Kvöldið sem hann kom fórum við familían með hann á Ramiro's (Veitingastaðurinn) og hann, eins og allir aðrir sem koma á þennan stað, varð strax ástfanginn af staðnum. Hann var svo hjá mér í viku og ég sýndi honum allt það helsta sem Trujillo hefur upp á að bjóða. Við kíktum í mollin, hann kom með mér í salsatíma, við fórum á brimbretti í Huanchaco, kítkum í bíó o.fl. Hann fékk mig svo tvisvar með sér í ræktina... Mig verkjaði í allan líkamann marga daga eftir á. Enda ekki mikill áhugamaður um líkamstæktarstöðvar.

Þann 11. febrúar byrjaði svo AFS-ferðin um N-Perú og krakkar frá öllu landinu flykktust til Trujillo.

Á laugardeginum var stefnan sett á Complejo Arqueológico El Brujo (Fornminjasvæðið El Brujo). Við skoðuðum þar Huaca Cao þ.e. musterið sjálft og svo líka safnið sem stendur við hlið musterisins. Þetta er allt eitthvað sem ég er búinn að skoða áður en samt gaman að skoða aftur og skilja loksins það sem leiðsögumaðurinn er að segja.

Á sunnudeginum fórum við fyrst að skoða Huaca del Sol y la Luna. Fleiri forn musteri frá tíma Mochica menningarinnar sem var ríkjandi á þessu svæði fyrir hundruðum ára. Eftir að skoða allt vel og vandlega og kaupa nokkra vel valda minjagripi héldum við til Chan Chan. Chan Chan er forn borg frá tímum Chimú menningarinnar sem var ríkjandi á svæðinu eftir Mochica menningunni og fram að innrás Inkanna. Eins og fyrri daginn var þetta allt eitthvað sem ég var búinn að sjá áður en samt sem áður áhugavert. Eftir Chan Chan settum við stefnuna á Huanchaco þar sem við fengum okkur hádegismat og fórum svo á ströndina. Við vorum á ströndinni fram á kvöld og snerum svo aftur til Trujillo. Um kvöldið fórum við Guðbjartur með fjölskyldunni á Ramiro's sem var ljúffengt eins og alltaf :)

Á mánudagsmorgun fór allur hópurinn í sögugöngu um miðbæ Trujillo. Flest húsin í miðbænum eru í nýlendustíl og mikið að skoða þar. Eftir gönguna fórum við aftur á hótelið til að almorzar (hádegismatast). Eftir að hafa hádegismatast fórum við á rútustöðina til að fara til næstu borgar sem var Chiclayo. Chiclayo er um 4 tíma norður af Trujillo. Við komum til Chiclayo um kvöldið, tékkuðum okkur inn á hótelið og fórum svo út að borða.

Daginn eftir lögðum við af stað í tveimur minirútum til Túcume í Lambayece. Þar eru musteri og fornminjar frá tíma Mochica. Við kíktum fyrst á safnið og svo á svæðið sjálft sem samanstendur af fullt af musterum og byggingum frá þessum tíma. Hitinn var rosalegur og allir að kafna. Ég myndi skjóta á svona 35 gráður. Við klifum eitthvað lítið fjall til að hafa útsýni yfir allt svæðið sem var rosa flott. Eftir Túcume og 2 lítra af vatni á mann fórum við á safnið um El Señor de Sipán. Hann fannst grafinn í einvherju musteri með fullt af gulli og dóti sem er til sýnis á safinu. Eftir safnið borðuðum við hádegismat og fórum svo á Pimentel ströndina. Um kvöldið fórum við svo aftur til Chiclayo, fengum okkur að borða og skelltum okkur á diskótek.

Á miðikudeginum fórum við að skoða Reserva Ecológica Chaparrí (einskonar verndað svæði). Þegar við komum á svæðið skiptum við okkur upp í 3 hópa, hver hópur með sinn leiðsögumann. Minn var Don Pedro, eldgamall karl með sinn eigin skóg á höndunum (mjög loðinn). Við fórum í gönguferð um hluta svæðisins og sáum meðal annars ýmsa kaktusa, fulga, froska, köngulær, snáka, villisvín og birni. Við snerum svo aftur til Chiclayo og fengum okkur hádegismat. Seinni partinn notuðum við til að rölta um bæinn og um kvöldið fórum við með rútu til næstu borgar, Tumbes. Tumbes er borg næstum alveg við landamæri Perú og Ekvador. Ég var svo óheppinn að lenda við hliðina á einhverum feitum náunga sem tók rosa mikið pláss og hraut hátt í þokkabót þannig að ég svaf ekki mjög vel á leiðinni...

Snemma á fimmtudagsmorgun komum við til Tumbes og þar tók Frank, forseti AFS í Tumbes, á móti okkur. Við fórum beint á hótelið, tékkuðum okkur inn og fengum okkur svo morgunmat. Þennan daginnn var ferðinni heitið til Puerto Pizarro. Þar fórum við um borð í lítla báta sigldum um eyjarnar í kring. Við tókum fyrsta stoppið á lítilli eyju með krókódílagarði. Þar sáum við krókódíla af öllum stærðum og gerðum. Næst fórum við framhjá eyjum með rosalega miklu fuglalífi. Ég held ég hafi sjaldan séð svona marga fugla samankomna á einum stað. Næsta stopp var á lítilli eyju þar sem við gátum farið að synda. Þeir sem vildu gátu svo synt yfir á næstu eyju og til baka. Eftir sundsprettinn snerum við aftur til Puerto Pizarro og fengum okkur hádegismat. Seinni partinn snerum við svo aftur til Tumbes og um kvöldið fórum við á diskótek.

Á föstudagsmorgun lögðum við að stað í átt að Brúna lóninu, þ.e. þremur drullupyttum sem hægt er að baða sig í. Það á víst að vera rosa gott fyrir húðina að vera allur út í drullu þó ég leyfi mér að efast um þær staðhæfingar. Við skelltum okkur að sjálfsögðu ofan í og urðum vel drullug. Eftir langt drullubað fórum við á stöndina Zorritos. Ég er ekki frá því að þetta sé skemmtilegasta og fallegasta strönd sem ég hef komið á. Ekkert grjót á botninum, lítið af fólki og risa öldur. Við skemmtum okkur heillengi á ströndinni og þrátt fyrir að hafa sett þrisvar á mig sólarvörn 60+ brann ég svona líka skemmtilega illa á öxlunum og bakinu. Enda hélt ég að axlirnar ætluðu hreinlega að flagna af mér dagana eftir þetta. Um kvöldið tók ég svo rútu til baka til Trujillo.

Ég kom snemma á laugardagsmorgninum til Trujillo eftir 12 tíma rútuferð frá Tumbes. Ég eyddi deginum í að slaka á og bera á mig after sun og aloe vera. Seinni partinn tók ég svo aftur saman dót og um kvöldið fór ég með Rosu, Carolinu og Zulemu (mömmu, systur, systur) til Cajamarca. Cajamarca er borg í 3000 metra hæð yfir sjávarmáli í miðjum Andesfjöllunum.

Við komum til Cajamarca um 5leytið, fórum beint á hótelið go sváfum fram á morgun. Þegar við svo loksins vöknuðum fórum við og keyptum okkur miðana heim og fengum okkur morgunmat. Síðan tók við skrúðgangan í tilefni karnavalsins í Cajamarca sem var akkúrat um þessar mundir. Skrúðgangan var rosa flott og skrautleg. Á karnavalinu í Cajamarca er mikil hefð fyrir því að bleyta aðra annað hvort með vatnsbyssum, vatnsblöðrum eða jafnvel fötum. Við fengum alveg okkar skamt af því og sérstaklega ég þar sem ég er "gringo". Í hádeginu fórum við á veitingastað til að almorzar (hádegismatast). Seinni partinn rigndi alveg rosalega enda er rigningatímabil í fjöllunum um þessar mundir. Við eyddum svo kvöldinu í að rölta um miðbæinn í rigningunni.

Á mánudeginum fórum við að skoða Las Ventanillas de Otuzco sem eru fornar grafir í rosa fallegu sveita-umhverfi. Eftir það fórum við að Baños del Inca. Þar eru heitar uppsprettur sem Inkarnir notuðu til að baða sig í. Þar sáum við líta sérstaka baðaðstöðu Atahualpa sem var síðasti leiðtogi Inkaveldisins eða Tahuantinsuyu eins og þeir kölluðu það. Við fegnum okku svo hádegismat í þorpinu og snerum aftur til Cajamarca. Við komumst ekki nema rétt inn í bæinn þar sem skrúðgangan stíflaði allt. Við þruftum að troða okkur inn  og labba meðfram skrúðgöngunni í lengri tíma því að fólkið vildi ekki hleypa okkur framhjá. Á endanum náðum við þó að sannfæra einhvern señor um að helypa okkur framhjá því að við þyrftum að ferðast (þó það hafi ekki verið fyrr en um kvöldið, við vorum bara svo þreytt af allri göngunni). Seinna um daginn tókum við smá rölt um bæinn og ég keypti mér tvær húfur og sokka úr llama-ull og svo ponco úr alpaca-ull. Um kvöldið héldum við svo heim til Trujillo.

Um kvöldið þann 23. febrúar lagði ég svo af stað í næsta ferðalag. Núna var ferðinni heitið til borgarinnar Iquitos sem er staðsett í miðjum Amazon-frumskóginum.

Snemma á föstudagsmorgninum komum við til Lima eftir 9 tíma ferð frá Trujillo. Við biðum eftir fleiri krökkum sem ætluðu með okkur og fórum svo út á flugvöll vegna þess að það er einginn vegur sem liggur til Iquitos. á flugvellinum hittum við svo enn fleiri krakka sem ætluðu líka að ferðast með okkur. Allt í allt var þetta 17 manna hópur sem fór saman. Klukkan 13:30 settumst við upp í flugvél frá StarPerú og lögðum af stað. Eftir stutt stopp í Tarpoto lentum við seinni partinn í Iquitos. Við tékkuðum okkur inn á hótelið, fengum okkur kvöldmat og skelltum okkur svo á diskótek um kvöldið.

Morguninn eftir heimsóttum við Mike vin okkar sem leigði okkur stígvél fyrir áætlaða frumskógarferð. Mike er náungi frá Bretlandi sem býr í Iquitos og gefur út Iquitos Times á ensku. Skemmtilegur náungi með skemmtilega breskan hreim. Þegar allir voru komnir með stígvél kvöddum við Mike og fórum á Nanay höfnina. Þar fórum við upp í lítinn bát sem fór með okkur inn í frumskóginn á Amazon-ánni. Við stoppuðum í litlu þorpi og tókum göngu í gegnum skóginn að "jungle logde-inu" okkar. Á leiðinni sáum við ýmis skordýr, snáka og fullt af plöntum og ferskum ávöxtum sem við borðuðum beint af trjánum, verður ekki mikið ferskara. Þegar við komum á logde-ið fengum við okkur hádegismat sem var fiskur sem heitir á spænsku el dorado og steikt krókódílakjöt. Bæði alveg ljúffengt.  Eftir hádegismat tók við smá afslöppun. Eftir að hafa dottað smá stund í hengirúmunum fórum við aftur í bátinn. Ferðinni var heitið að einskonar dýragarði þar sem dýrin eru samt alveg frjáls, þ.e. engin búr. Þar lékum við okkur með öpunum sem eru einstaklega skemmtileg dýr, ég lét taka mynd af mér með Boa slöngu á hálsinum og letidýr í fanginu, sáum fullt af páfagaukum og fleiri fuglum og margt fleira. Þegar fór að nálgast sólsetur skelltum við okkur í ána og enduðum því daginn syndandi með pirañafiskunum í Amazon-ánni við sólsetur. Alveg mögnuð upplifun! Á meðan þér er ekki að blæða út og þú pissar ekki í ána eru pirañafiskarnir ekkert hættulegri en hver annar fiskur. Þegar við vorum búin að baða okkur fórum við aftur á logde-ið og borðuðum kvöldmat. Í matinn var hefðbundið reykt svínakjöt sem þeir borða víst rosa mikið þarna í frumskóginum, ótrúlegt en satt. Seinna um kvöldið sögðu leiðsögumennirnir okkur sögur úr skóginum og svo fóru allir þreyttir en sælir að sofa.

Daginn eftir heimsóttum við hóp af Yahua indíánunum sem eru einn af fjölmörgum ættbálkum sem búa á Amazonsvæðinu. Þau buðu okkur velkomin á Yahua (tungumálinu sínu), kenndu okkur svo dansana sína og leyfðu okkur að prufa að skjóta eiturpílum. Markmiðið var að hitta trégrímu sem þau hengdu upp. Leiðsögumaðurinn sem er að hluta til Yahua indíáni sagði okkur frá því að til að verða Yahua leiðtogi þarf að vera yfirburðagóður veiðimaður og æðstu mennirnir í ættbálknum fá að taka sér 6-8 konur. Ég hitti næstum því í grímuna og þá sagði leiðsögumaðurinn í gríni að ég væri með svona 3 kvenna hittni. Eftir mjög áhugaverða heimsókn fórum við aftur í lodge-ið og fengum okkur hádegismat en þar sem mér var aðeins illt í maganum eftir matinn daginn áður borðaði ég eiginlega ekkert. Eftir matinn fórum við svo á pirañaveiðar. Við fengum hefbundnar tálgaðar tréstangir eins og infæddir nota og reyndum að veiða pirañafiska en því miður veiddist ekkert... Eftir misheppnaða veiðiferð héldum við áfram á bátnum að ármótum Amazon og Nanay ánna. Þar sem þessar ár koma saman er mikið upprót á botninum og því góðar aðstæður til að sjá bleika höfrunga og þá fengum við aldeilis að sjá. Stórar og flottar skepnur. Við snerum svo aftur til Iquitos eftir ógleymanlega ferð í frumskóginn.

Á mánudaginn fórum við á Belén markaðinn sem er stærsti markaðurinn í Iquitos. Þar er meðal annars hægt að kaupa skjaldbökukjöt, apakjöt, mauraætukjöt, krókódílakjöt og pirañafiska. Það er líka risa náttúrulækningadeild full af allskonar plöntum og sulli í flöskum. Eftir að hafa skoðað markaðinn fórum við á lítin bát og sigldum um Belén hverfið. Þar býr fólk í húsum á miðri ánni. Þetta er rosalega fátækt hverfi þar sem t.d. einungis 50% af krökkunum fara í secundaria sem er eins og seinni hluti grunnskóla á Íslandi. Í Belén búa venjulega 2-3 fjölskyldur í hverju húsi og allt í allt búa um 15.000 manns á svæðinu. Ég held að það sé óhætt að segja að það hafði mikil áhrif á okkur öll að sigla um þetta svæði. Á siglingunni sáum við líka risa vatnaliljur sem leiðsögumaðurinn sagði að væru þær stærstu í heimi. Ég efast stórlega um að akkúrat þessar hafi verið þær stærstu í heimi en þær voru samt rosa stórar. Við snerum svo aftur á hótelið og í hádeginu fengum við okkur skjaldbökukjöt í carrí, mjög gott :D Seinni partinn tókum við því bara rólega enda rigndi mikið.

Á þriðjudagsmorguninn fórum við út á flugvöll og héldum til Lima á ný eftir ótrúlega og ógleymanlega ferð í Amazon-frumskóginn. Við biðum svo í Lima fram á kvöld og fórum þá hver til sinnar borgar.

Myndir frá öllum ferðalögunum má finna á facebook-síðunni minni.

Ég vona að þetta hafi ekki verið allt of langt og ég yrði ekkert leiður ef þið skilduð eftir comment ;)

¡Hasta luego!

fimmtudagur, 29. desember 2011

Dans, jólin o.fl.

Vil byrja á því að óska ykkur sem eigið eftir að lesa þetta gleðilegra jóla og gæfuríks nýs árs. Svona þar sem við munum að öllum líkindum ekki hittast neitt yfir hátíðarnar.

Annars er ýmislegt búið að gerast síðan síðast og eins og alltaf ætla ég að segja frá því helsta, annars yrði ég mörg ár að skrifa þetta blogg.

Helgin 10. - 11. desember var sannkölluð danshelgi.
Á laugardeginum var hádegisverður í Club Libertad í boði Marinerasambands Perú. Þar voru samankomnir allir helstu einstaklingar marinera-heimsins. Þar sem danskennarinn minn er fyrrverandi meistari og rekur skóla var okkur boðið. Þarna sýndu bæði Perú- og heimsmeistarar í öllum aldurshópum og eftir sýninguna var hlaðborð af ýmsum gómsætum perúskum réttum.
Á sunnudeginum var svo keppni. Þegar kennarinn spurði okkur, tveimur vikum áður, hvort við vildum taka þátt í keppni hugsaði ég með mér. "Afhverju ekki?" og við ákváðum að slá til. Ég fór til klæðskera og lét sauma á mig fötin og fékk skósmið til að smíða fyrir mig skóna. Á daginn sjálfan mættum við á svæðið og biðum svo í heila eilífð eftir að allir yngir flokkarnir kláruðu. Svo var loksins komið að okkur. Ég hélt ég myndi míga á mig ég var svo stressaður. Ég hef alveg oft keppt í dansi og sýnt dans en aldrei þennan dans og seinni hlutann af honum lærði ég tveimur vikum áður (marinera skiptist í fyrri hluta og seinni hluta). Allar áhyggjur reyndust samt ástæðulausar, lagið var þægilega langt (sum lög er mjöööög löng) og að lokinni fyrstu umferð vorum við og annað par jöfn í efsta sæti þannig að við tók bráðabani. Bráðabananum lauk þannig að við unnum með fullt hús stiga!* Ég fékk þetta líka fína dót til að hengja á brjóstkassann í verðlaun.

*Kannski rétt að taka fram að við kepptum í flokknum byrjendur á aldrinum 14-17 ára, en samt...


Laugardaginn 17. desember afmæli Rosu, perú-mömmu. Í fyrstu ætluðum við að halda svaka veislu með öllu tilheyrnadi en þar sem önnur systir mín er búin að vera veik ákváðum við að taka því frekar rólega. Fórum öll fjölskyldan út að borða í hádeginu á rosa góðum stað. Seinni partinn fórum við svo í mallið og keyptum smá gjöf fyrir afmælisbarnið. um kvöldið fórum svo aftur út að borða á hinum víðfræga og fjölsótta (af okkur) Ramiro's.

Jólin
Ég vaknaði um morguninn 24. des og það var nákvæmlega ekkert sem minnti á að það væru jól í dag, það var sól og steikjandi hiti... Ekki alveg það sem ég er vanur á þessum degi. Eftir hádegismat skellti ég mér í mollið þar sem ég hitti nokkra aðra AFS krakka. Við áttum að öll sameiginlegt að eiga eftir að kaupa allar jólagjafirnar! En það var samt allt í lagi vegna þess að allar búðir eru opnar á þessum degi (enda vorum við mjög greinilega ekki þau einu sem áttu jólagjafirnar eftir) og jólin byrja ekki fyrr en 12 að miðnætti. Eftir langa og stranga verslunarferð (ætla adrei aftur að kaupa jólagjafirnar á aðfangadag!) var ég kominn með eitthvað fyrir alla og gat haldið heim til að leggja mig aðeins fyrir kvöldið. Klukkan 23:30 settumst við svo við veisluborðið og hámuðum í okku pavo (kalkúnn), panetón (eins konar jólakaka) og pan con pollo (brauð með kjúkling og majónesi). Þessu var svo skolað niður með heitu súkkulaði (frekar kaldhæðnislegt í ljósi hitans). Þegar klukkan sló tólf settum við jesúbarnið á sinn stað í heimagerðu uppsetingunni af fæðingu jesú, kveiktum á blysum (innandyra!), skáluðum í kampavíni og óskuðum hvoru öðru gleðilegra jóla. Það var líka töluvert um flugelda þó svo að við hefðum ekki sprengt neitt. Þegar öllu þessu var lokið tóku við til við að opna pakkana. Ég fékk alskonar perúdót sem mun án efa prýða herbergið mitt heima á Íslandi þegar ég kem heim. Svo um tvöleytið var allt búið og við fórum að sofa.
Á jóladag eru engar sérstakar hefðir nema kannski að vera heima með familíunni og slaka af. Um kvöldið fórum við reyndar niður í miðbæ og kíktum á allar jólaskreytingarnar á Plaza de Armas.

Í dag, 29. desember, fagna Trujillobúar því að á þessum degi árið 1820 lýstu þeir yfir sjálfstæði borgarinnar frá Spáni. Í ár á Trujillo því 191 árs sjálfstæðis-afmæli. Í tilefni þessa var haldin skrúðganga með þáttöku hersins og borgarstarfsmanna. Meðal þáttakenda voru hinar ýmsu hreinsunardeildir borgarinnar, m.a. skófludeildin, hjólbörudeildin og kústadeildin sem mér fannst einstaklega frambærileg. Frekar fyndið að sjá þau marsera á eftir vopnuðum herdeildum. Svo setti leikhópur upp sjálfstæðisyfirlýsinguna á svölum ráðhúshallarinnar.

Það hlýnar alltaf og hlýnar úti, heitasti tíminn er víst janúar - febrúar - mars. Ég er líka farinn að æfa salsa þannig að það er nóg að gera.

Hasta luego!


PS. comment eru mjög vel þegin :)

sunnudagur, 4. desember 2011

Talandi um að tíminn sé fljótur að líða...

Þegar ég settist niður í morgun og ákvað að "uppfæra stöðuna" hélt ég að það væru svona 3 vikur kannski í mesta lagi síðan ég bloggaði síðast en neinei, það eru hvorki meira né minna en 7 vikur síðan! Talandi um að tíminn sé fljótur að líða... Eins og alltaf ætla ég að segja frá helstu atburðum sem á daga mína hefur drifið þessar 7 (en ekki 3) vikur síðan síðast.

Mánudagurinn 17. október
Fór með Rosu, mömmu, og Zulemu, systur, á stærsta markaðinn í Trujillo, Hermelinda. Þangað förum við stundum til að kaupa ávexti. Markaðurinn skiptist upp í nokkur svæði; ávaxtasvæðið, fatasvæðið, byggingavörusvæðið, nammisvæðið, kartöflusvæðið, ofl. Við fórum á ávaxtasvæðið. Ég hef aldrei á ævinni séð svona mikið af ávöxtum! Það voru bókstaflega ávextir út um allt og upp um allt. Svo er þetta allt selt í kílóatali, t.d. kostar eitt kíló af appelsínum 150 - 200 kr. fer aðeins eftir því hvað þær eru stórar. Allir ávextirnir á markaðinum eru fluttir beint úr frumskóginum og á markaðinn.

Laugardagur 22. október
Fann þetta líka fína íþróttasvæði hérna rétt hjá með hlaupabraut þannig að ég ákvað að skella mér út að hlaupa. Mjög hressandi svona í morgunsárið, reyndar líka svolítið erfitt í steikjandi sólinni. Held ég hafi sjaldan svitnað jafn mikið. Þegar ég kom heim var bara ágætt að hafa ekkert heitt vatn í sturtunni. Seinni partinn fór ég í mína fyrstu klippingu í Perú! Ég var vægast sagt mjög hræddur um að þetta myndi koma illa út. Ég varð líka frekar hræddur þegar klippikonan byrjaði að raka mig á hnakkanum og kringum eyrun með svona gamaldags rakhníf. Held ég hafi aldrei setið eins kyrr í stólnum, enda leiðinlegra að fara heim eyrnalaus. Áhyggjurnar reyndust að lokum ástæðulausar, klippingin kom fínt út og svo var ekki verra að hún kostaði bara 200 kr. Um kvöldið var svo afmælisveisla hjá Yorka, 4 ára perú-frænku minni.

Sunnudagur 23. október
Fór í morgun með Carolinu, systur, á Olympiadas hjá háskólanum hennar. Þetta eru sem sagt svona "ólympíuleikar" skólans. Það halda allir skólar og háskólar svona. Gengur þannig fyrir sig að það er keppt í ýmsum íþróttum t.d. fótbolta, körfubolta, frjálsum og blaki, milli bekkja. Mjög skemmtilegt og gott veður :) Seinni partinn átti ég svo mjög áhugavert spjall við Carolinu. Hún var að segja mér að meirihluti perúbúa giftir sig ekki. Hún sagði að það væri svo mikið um misheppnuð hjónabönd að fólk væri ekkert að hafa fyrir því að gifta sig. Áhugaverð nálgun hjá þeim...

Laugardagur/Sunnudagur 29/30. október
Laugardagsmorgun fór ég í skólann af því að það var einhvers konar fjölskylduhátíð. Þar hitti ég Sonju og Can, AFS stelpurnar sem eru með mér í skóla. Þarna varu allskonar básar, handverkshorn, dans, söngur, Can kenndi yoga o.fl. Seinni partinn bakaði ég kryddkökur til að fara með á AFS hitting þar sem allir áttu að koma með eitthvað frá sínu landi. Hráefnið var ekki alveg það sama og á Íslandi og ofninn allt öðruvísi plús það að ég er enginn bakarameistari, langt því frá! Það var því eiginlega bara mjög eðlilegt að ég hafi næstum kveikt í eldhúsinu með fyrstu plötunni sem fór inn í ofn. Ég sat inni í stofu og fann einhverja skrýtna lykt og þegar ég fór inn í eldhús til að athuga málið stóð svartur reykur út úr ofninum. Ég flýtti mér náttúrulega að slökkva á græjunni og opna alla glugga enda var orðið töluvert vond reykjarfýla í eldhúsinu. Hinar plöturnar tókust samt alveg ágætlega. Um kvöldið fór ég heim til Vilu (forseta AFS í Trujillo) þar sem ég hitti hina skiptinemana og sjálfboðaliðana í Trujillo. Mæting var klukkan 7, sem þýddi að sjálfsögðu að síðustu sjálfboðaliðarnir voru að detta inn klukkan 8:30 - 9:00, týpískt fyrir perúbúa. Við fórum svo til Huanchacito sem er lítið þorp milli Trujillo og Huanchaco (þar sem ströndin er). Þar fórum við í einhverja leiki, kveiktum varðeld, borðuðum mat frá öllum löndunum (kökurnar mínar þóttu afbragðsgóðar), sungum og spjölluðum til svona 4:30, þá fórum við að sofa en þar sem það voru engar dýnur í húsinum sváfum við bara í svefnpokunum á hörðu gólfinu. Ég verð að viðurkenna að ég var pínu stirður í skrokknum þegar ég vaknaði. Um morguninn löbbuðum við svo meðfram ströndinni frá Huanchacito til Huanchaco þar sem við borðuðum bruch og fórum aðeins á ströndina. Svo fóru allir til síns heima.

Þriðjudagur 1. nóvember
Í dag var frídagur og í tilefni þess fórum við öll til Otuzco sem er þorp uppi í fjöllunum, um 2 klst. frá Trujillo. Ótrúlega fallegt þarna uppi. Allstaðar ræktun, ég sá t.d. ananasakra í fyrsta skipti. Þegar við komum til Otuzco röltum við aðeins um bæinn, fórum svo á veitingastað og fengum okkur almuerzo (hádegismat). Maturinn var að sjálfsögðu stórgóður. fórum svo að skoða kirkjuna sem er mjög stór og ég skellti mér á llama-bak. Keypti mér líka ullarhúfu og vettlinga með llama-munstri. Um kvöldið snerum við svo aftur til Trujillo eftir góðan dag.

Fimmtudagur 3. nóvember
Eftir skóla fór ég á marinera-æfingu eins og alla aðra þriðju-, fimmtu-, og föstudaga en í dag ákvað kennarinn að láta okkur dansa endalaust. Eftir 3 tíma (venjulega erum við klukkutíma) sagðist ég þurfa að fara heim, enda stóð ég varla í lappirnar ég var svo þreyttur. Marinera er dans sem reynir mjög á líkamlegt þol. Um kvöldið fórum við svo út að borða á Veitingastaðnum, sem heitir víst Ramiros.

Laugardagur 5. nóvember
Um hádegið fór ég að sjá argentískan þjóðdansahóp. Þau dönsuðu fullt af flottum dönsum m.a. argentískan tangó. Svo buðu þau áhorfendum í dans og ég tók að sjálfsögðu sporið með þeim :) Um kvöldið var mér boðið út að borða með hópnum. Fórum á fínan veitingastað og borðuðum góðan mat.

Fimmtudagur 10. nóvember
Þegar ég kom heim úr skólanum var pakkinn frá Íslandi kominn. Mjög gaman að fá íslenskt nammi. Perúska nammið er ekkert sérstakt. Í pakkanum var líka bréf og svo mynd sem Unnur systir teiknaði, ekkert smá sætt.

Sunnudagur 13. nóvember
Í dag tók ég þátt í fyrsta "maraþoninu" mínu. Hljóp reyndar ekki nema 6,5 km, en samt... Hlaupið byrjaði á Plaza de Armas (aðaltorgið í bænum) og við hlupum á Av. España, hringlaga gata sem nær hringinn í kringum allan miðbæinn. Hlaupið endaði svo á Estadio Mansiche, aðal-leikvangurinn í Trujillo. Ég stóð mig bara nokkuð vel, veit reyndar ekki í hvaða sæti ég var en held að það hafi verið svona topp 25 af 300 sem tóki þátt.

Laugardagur 19. nóvember
Um morguninn fór ég með Sonju og Can til Huanchaco. Við fórum á ströndina í góða veðrinu og fengum okkur svo cebiche og chicharrones, mjög góður perúskur matur! Þegar ég kom heim seinni partinn sátu Mexíkani og Argentínubúi í stofunni. Þau eru sem sagt par sem eru að ferðast frá Mexíkó til Argentínu. Þegar þau voru í Tumbes (bær við landamæri Perú-Ekvador) var öllum peningunum þeirra stolið. Þau voru sem sagt allslaus. Þau húkkuðu sér far til Trujillo og voru á röltinu þegar þau komu að búðinni sem foreldrar mínir eiga. Það endaði þannig að pabbi bauð þeim heim til okkar í hádegismat. Seint um kvöldið fórum við á rútustöðina og keyptum fyrir þau miða til Lima. Þar ætla þau að koma sér í argentíska sendiráðið til að fá hjálp við að komast til Argentínu. Mikið ævintýri.

Laugardagur 26. nóvember
Fór með Sonju og Rommy, skiptinemi frá Belgíu, á brimbretti í fyrsta skipti á ævinni. Það var virkilega skemmtilegt og líka miklu auðveldara en ég hefði nokkru sinni haldið. Í lok tímans vorum við öll farin að standa á brettunum í litlum öldum. Ætla pottþétt að gera meira af þessu.

Mánudagur 28. nóvember
Fór með marinerakennaranum mínum til klæðskera sem ætlar að sauma á mig marinera dress. Ég ætla nefnilega að taka þátt í keppni þann 11. desember. Þetta er keppni fyrir þá sem hafa aldrei keppt áður í marinera. Held að þetta verði bara gaman. Þegar við vorum búnir að tala við klæðskerann og láta mæla mig allan fórum við til skósmiðs sem ætlar að smíða marineraskó fyrir mig.

Laugardagur 3. desember
Í dag fór ég aftur á brimbretti en fyrst hitti ég Rommy, Sonju og Meike (þjóðverji) í Huanchaco þar sem við fengum okkur papa rellena og picarones, meiri perúskur matur :) Eftir matinn skelltum við okkur svo í sjóinn. Kennarinn okkar sagði okkur svo frá því að í sumar (janúar-febrúar) verður brimbrettaskólinn með frí námskeið fyrir fátæk börn og hann spurði okkur hvort við vildum hjálpa til. Við vorum að sjálfsögðu til í það. Um kvöldið fór ég svo með fjölskyldunni út að borða á Ramiros.

Eins og þið sjáið hafa þessar 7 vikur verið frekar rólegar, lífið er komið í svona nokkuð fastar skorður. Skólinn fer alveg að klárast, held meira að segja að ég fari í sumarfrí næsta föstudag svo byrjar skólinn aftur einhvern tímann í byrjun mars. Ekki slæmt :)

¡Hasta luego!

mánudagur, 17. október 2011

Vá hvað tíminn er fljótur að líða!

Jæja, núna er ég búinn að vera í Perú í næstum 6 vikur. Ég trúi því samt varla að ég sé búinn að vera svona lengi, tíminn flýgur frá mér. Það er ýmislegt búið að gerast síðan síðast, enda langur tími síðan síðast. Ég ætla að segja frá því helsta sem hefur á daga mína drifið.

Helgina 23-25 sept. var mikið um að vera.
Á föstudeginum var Día de la juventud (dagur ungdómsins) og í tilefni þess var skóladagurinn með öðruvísi sniði en venjulega. Dagurinn byrjaði á English Contest og þar sem enskukunnátta perúbúa er ekki upp á marga fiska hefði verkefnið vel hæft 5. eða 6. bekk í grunnskóla á Íslandi, sem sagt frekar auðvelt. Eftir keppnina var messa í skólaportinu. Ég held að presturinn hafi verið frekar fyndinn því á fimm mínútna fresti fór hláturbylgja um portið. Ég skildi að sjálfssögðu ekki brandarana en reyndi að hlæja með eftir bestu getu. Eftir messu bauð skólinn upp á all-you-can-eat hlaðborð af ávöxtum og við erum ekki bara að tala um þetta venjulega; epli, appelsínur og banana, heldur allskonar litríka ávexti sem ég hef aldrei á ævinni séð, hvað þá smakkað. Þeir voru samt mjög góðir. Þegar allir höfðu borðað nægju sína af gómsætum S-Amerískum ávöxtum var komið að aðal fjörinu: Gran Gymkana! Þetta gekk sem sagt þannig fyrir sig að það var keppni í einhverjum hlægilegum greinum milli bekkja í hverjum árgangi. Keppnirnar voru mjög skemmtilegar og þeir sem ekki tóku þátt (tveir úr hverjum bekk tóku þátt) lágu í hláturkrampa á hliðarlínunni, bókstaflega. Um kvöldið var svo fiesta í skólanum. Þar var mikið dansað og ég lét mig að sjálfssögðu ekki vanta á dansgólfið ;)

Á laugardeginum fór ég með öllum AFS hópnum í Trujillo að skoða minjar frá siðmenningum fyrir tíma Inkanna. Það sem stóð upp var Chan Chan svæðið. Þar skoðuðum við höll nr. 8 af 9. Þetta gekk sem sagt þannig fyrir sig að þegar nýr leiðtogi tók við ríkinu varð hann að gjöra svo vel að byggja sér nýja höll til að móðga ekki leiðtogann þar á undan. Chan Chan var borg á 20 ferkílómetra svæði á blómaskeiði Chimú siðmenningarinnar frá um 850 e.Kr. til um  1470 e.Kr. þegar Inkarnir komu í heimsókn. Höll nr. 8 sem við skoðuðum er stærsta höllin á svæðinu og þar hefur varðveist töluvert af upprunanalegum skreytingum (sjá myndir á fecebook). Eftir Chan Chan fórum við að skoða Huaca de la luna (Tunglmusterið) sem bar byggt á tímum Moche siðmenningarinnar sem síðar varð að Chimú. Huaca de la luna er gríðarstórt musteri byggt til heiðurs tunglguðinum sem var þeim mjög mikilvægur. Um kvöldið fór ég svo út að borða með fjölskyldunni.

Á sunnudeginum fórum við aftur öll saman en nú var ferðinni heitiðtil El Brujo þar sem fleiri musteri og hallir frá tímum Moche er að finna. Við skoðuðum Huaca Cao musterið sem talið er að hafa verið byggt á tímabilinu 1-500 e.Kr. Það sem er kannski merkilegast við Huaca Cao er að þar fannst múmía Señoru Cao sem ríkti yfir Moche veldinu. Múmían fannst í heilu lagi með beinagrind, húð og öllu því gulli og skartgripum sem voru grafnir með henni. Þetta er allt til sýnis á Museo Cao við hliðina á Huaca Cao sem við skoðuðum líka.

Sunnudaginn 2. október var Festival de la Primavera (Vorhátíðin) í Trujillo. Það er frekar furðulegt að vera að fagna vorinu í október en það er svona að vera skiptinemi, hlutirnir eru í flestum tilfellum ekki eins og venjulega. Við Carolina systir mín fórum að horfa á Corso de la Primavera. Skrúðganga af stærstu gerð með dönsurum, fegurðardrottningum og tónlist. Bærinn var algjörlega stappaður af fólki og mikið af túristum koma á þessum tíma til að upplifa þessa hátíð sem Trujillo er þekkt fyrir.

Föstudaginn 7. október var landsleikur milli Perú og Paraguay. Það fer allt á annan endann í Perú þegar landsliðið í fótbolta er að fara að spila. Allar auglýsingar innihalda fólk í landsliðstreyjum, þjóðarstoltið er mjög mikið. Það er varla fjallað um annað í fréttunum, lífið snýst bara um leikinn sem er framundan. Ég lét að sjálfsögðu mitt ekki eftir liggja og keypti mér landsliðstreyju til að vera með. Leikurinn fór 2-0 fyrir Perú, Jeii! Seinna um kvöldið fór ég með Carolinu og tveimur vinum hennar á El Estribo sem er svona salsaklúbbur. Þar kemur fólk saman og dansar salsa, cumbia og marengue fram á rauða nótt, mjög gaman :)

Laugardaginn 8. október fórum við fjölskyldan með combi (lítill strætó) klukkutíma upp í fjöllin frá Trujillo á eins konar sumarleyfisstað með veitingastað, sundlaug, blakvelli og fótboltavelli. Við spiluðum blak, skelltum okkur í laugina og borðuðum svo cuy (naggrís) endilega googlið cuy, ekki það girnilegasta í heimi en bragðast ágætlega. Þetta var mjög góður dagur í sólinni.

Þriðjudaginn 11. október var mér boðið í hádegismat til fjölskyldu Can, þar sem ég var í viku í upphafi dvalarinnar. Við borðuðum góðan mat og eftir matinn fór ég með allri fjölskyldunni til Huanchaco. Þar spiluðum við blak á ströndinni og gerðum tilraun til að veiða á bryggjunni. Seinni partinn var landsleikur í fótbolta milli Perú og Chile, hann fór 4-2 fyrir Chile... Nú keppast allir helstu fjölmiðlar landsins við að kenna einhverjum öðrum en liðinu sjálfu um tapið.

Laugardaginn 15. október fór ég með pabba mínum til Virú, lítils bæjar í um klukkustundar fjarlægð frá Trujillo. Þar fengum við okkur göngutúr, fórum á markaðinn og fengum okkur önd á veitingastað í bænum. Um kvöldið fórum við svo öll fjölskyldan út að borða á Veitingastaðnum. Það er veitingastaður sem mér skilst að þau séu búin að vera að fara á í 15 ár. Þau eru tryggustu viðskiptavinirnir.

Ég er farinn að æfa marinera á þriðjudögum, fimmtudögum og föstudögum. Marinera er perúskur dans og Trujillo er svona hálfgerð höfuðborg marinera. Ég ætla svo á miðvikudaginn að fara á fyrstu æfinguna mína með skólaliðinu í frjálsum.

Nokkur svona almenn atriði sem mig langar að segja frá:

Strætókerfið í Perú er mjög óskipulagt en samt í rauninni algjör snilld. Það er ekki nein tímatafla, strætóarnir koma bara þegar þeir komast en það er samt allt í lagi af því að það eru svo margir, það er alltaf einhver á leiðinni. Þetta eru samt varla strætóar, þetta eru pínulitlir 10 manna bílar. Venjulegt fargjald er 1 nuevo sol eða 40 krónur en fyrir þá sem eru í skólabúningum eru það 50 centimos eða 20 krónur. Strætó á Íslandi ætti að taka sér þessa gjadskrá til fyrirmyndar!

Á mjög mörgum heimilum í Perú er ekkert heitt vatn, svoleiðis er það hjá mér. Það þýðir að sturtan er íííísköld. Til að byrja með ætlaði ég varla að þora að fara í sturtu. Núna er það samt að lagast, ég er næstum hættur að skjálfa. Fjölskyldan mín er samt svo yndisleg að hún ætlar að koma heitu vatni á sturtuna hjá mér. Ég get ekki sagt að ég hlakki ekki til að fara í aðeins volga sturtu.

Umferðin í Perú er brjáluð. Það er í reglum AFS að við megum ekki stjórna vélknúnu ökutæki á meðan á dvölinni stendur og ég skil það bara mjög vel! Þó það mætti myndi ég ekki setja sjálfan mig í þá lífshættu að keyra um göturnar hérna. Það eru alveg línur á götunni sem skiptir henni í akreinar en það fer bara enginn eftir þeim, það reyna allir að troðast eins og hægt er til að vera aðeins á undan næsta manni. Það er mikil áhersla lögð á að þeir sem sitja frammí séu í bílbelti en yfirleitt eru ekki belti aftur í. Það er heldur ekkert vandamál ef farþegarnir eru aðeins fleiri en sætin í bílnum, þá er bara troðið. Ég taldi einu sinni 7 manneskjur stíga út úr fimm manna leigubíl og þá er bílstjórinn ekki talinn með.

Ég vona að þið hafið haft gaman af.
¡Hasta luego!

PS. Endilega smellið einu commennti :)

mánudagur, 19. september 2011

Hola a todos!Nú er rúm vika frá síðasta bloggi og tímabært að búa til annað.

Á mánudaginn fór ég með Vila í skólann minn. Tilgangur ferðarinnar var  tvíþættur. Annars vegar að koma Sonju frá Þýskalandi í skólann og hins vegar að finna skólabúning fyrir mig. Það var ekkert mál að fá skólastjórann til að taka við Sonju en það gekk ekki alveg eins vel með að finna skólabúning. Eins og þið kannski vitið þá er S-Amerískt fólk í flestum tilfellum ekki svo hávaxið. Það var því lítið um föt sem pössuðu á mig. Ég gat þó fundið stuttbuxur og stuttermabol fyrir íþróttatíma. Seinni part mánudagsins var fundur heima hjá Vila með öllum skiptinemunum á svæðinu og fjölskyldum þeirra. Eftir fundinn fór ég heim með fjölskyldu Kan frá Tælandi. Alida sem ég var hjá býr bara ein og getur ekki komið mér í skólann á morgnana. Á heimilinu hennar Kan búa Jorge (pabbinn), Patricia (mamman), Rosa (systir - 15 ára), Melanie (systir - 11 ára) og Francesco (bróðir - 9 ára). Það er gott að vera kominn til fjölskyldu, meira líf á heimilinu.

Á miðvikudaginn var fyrsti dagurinn í skólanum. Það var eiginlega frekar crazy! Fyrir það fyrsta þá eru allir í skólabúningum. Mér leið svolítið eins og ég væri í Hogwarts. Skólabúningar eru samt frekar sniðugir. Maður þarf aldrei að hugsa um í hverju maður ætli að fara, það er ekkert val. Í ljósi þess að ég er hvítur og hávaxinn þá leið mér svolítið eins og dýri í dýragarði þarna. Allir voru að stara á mig og spyrja mig spurninga eins og: Hvað heitirðu? Hvaðan ertu? Hvar í ósköpunum er Ísland? Þetta var samt bara gaman og allir ótrúlega vingjarnlegir. Landafræðitíminn var frekar fyndinn. Við eyddum öllum tímanum í að horfa á youtube-myndbönd um hvernig múslimar eru að taka yfir heiminn með því að eignast mikið af börnum. Kennarinn, Alfredo, hefur greinilega miklar áhyggjur af þessu (ég skildi myndböndin af því að það var enskur texti).

Á fimmtudaginn var einhver uppákoma. Allir fjórðubekkir (ég er í 4.A) komu saman í samkomusalnum í skólanum og allir byrjuðu að syngja. Þegar þau voru búin að syngja sama lagið svona 4-5 sinnum fóru allir aftur í stofurnar sínar og dagurinn hélt áfram. Ég held að þetta hafi verið æfing fyrir einhverja keppni en það er ekki staðfest... Á leiðinn heim úr skólanum stoppuðum við hjá manni sem var að selja ananas (piño) úti á götu. Þetta var án efa besti ananas sem ég hef smakkað. Ávextirnir hérna eru almennt mjög góðir. Þar sem drykkjarvatn er frekar dýrt drekka Perúbúar mikið af ávaxtadjús og þá er ég ekki að tala um svona fernudjús sem mauður kaupir í Bónus heldur djús úr ferskum ávöxtum sem er búinn til heima. Mjög góðir.

Ég skil frekar lítið af því sem gerist í skólanum. Kennararnir tala og tala á hraðri spænsku og ég sit bara og læt líta út fyrir að ég viti hvað sé í gangi. Það er samt bara eðlilegt og kemur allt með tímanum :)

Á föstudaginn var DJ keppni í skólanum eftir skóla. Öllum nemendunum var safnað saman í portinu og svo kom fulltrúi frá hverjum árgangi og DJ-aði. Frekar fyndið að vera í trúarbragðatíma aðra stundina og svo á DJ keppni hina. Flippaður skóli.

Á laugardagskvöldið fór ég með fjölskyldunni á Plaza de Armas, aðaltorg Trujillo (sjá mynd).Það er mjög gaman að koma niður í miðbæinn. Fullt af flottum byggingum frá nýlendutíma Spánverja, fullt af fallegum styttum og ýmislegt að gerast. Þegar við vorum að rölta um torgið tóku nokkrir söngelskir háskólanemar í sérstökum búningum sig til og byrjuðu að syngja og spila fyrir okkur. Þeir spiluðu allskonar þjóðleg perúsk lög. Á öðrum stað á torginu voru nokkrir strákar að breika. Eftir að hafa rölt um miðbæinn fórum við út að borða á stað sem býður upp á perúska kjúklingarétti, mjög gott :)

Í gær fórum við í kirkju, nánar tiltekið gulu dómkirkjuna sem þið sjáið á myndinni hérna fyrir ofan. Hún er fallega að utan en mikið fallegri að innan. Eftir messu fórum við heim og slöppuðum af restina af deginum.

Þetta er svona það helsta sem hefur á daga mína drifið undanfarið :)

Chao!

sunnudagur, 11. september 2011

Hola todos!

Ég var búinn að lofa að vera duglegur að blogga þannig að það er best að byrja...

Ferðalagið frá Íslandi gekk vel. Við Guðbjartur hittumst í Leifsstöð og tékkuðum okkur saman inn. Svo fengum við okkur að borða og eitthvað svona sem maður gerir á flugvöllum. Ferðinni var heitið til New York (Nueva York). Þegar við lentum í NY eftir 6 tíma flug (hélt það ætti að vera 5 tímar) þá beið okkar endalaus röð til að komast að útlendingaeftirlitinu. Við biðum örugglega í tæpa 2 tíma í þyngsta lofti í heimi, með lágt til lofts og svo var allt troðið af sveittum útlendingum í þokkabót (við vorum ekki sveittir útlendingar). Þegar ég var búinn að láta  starfsmann útlendingaeftirlitsins fá fingraför af öllum fingrum og hann búinn að taka af mér mynd gátum við loksins náð í töskurnar og ferðast með lest frá Terminal 7 til Terminal 4. Flugvélin sem við flugum með til Lima var frekar stór. Að minnsta kosti stærsta flugvél sem ég hef ferðast með. Flugið til Lima tók rétt rúma 8 tíma en ég svaf eiginlega alla leiðina.

Þegar við lentum í Lima tóku tveir sjálfboðaliðar frá AFS á móti okkur og okkur var sagt að þrír krakkar frá Bandaríkjunum hefðu verið í sama flugi og við. Eftir 3 tíma bið og vesen komust þau að því að Bandaríkjamennirnir áttu ekki að koma fyrr en daginn eftir. Við fórum svo með sjálfboðaliðunum á aðalskrifstofu AFS í Lima þar sem við biðum í aðra 3 tíma. Eftir langa bið og frekar óþægilegar dottur (að dotta) komu krakkarnir frá Frakklandi og þá fórum við Guðbjartur, Thor frá Danmörku, Rógvi frá Færeyjum og Frakkarnir á staðinn þar sem komunámskeiðið var haldið.

Seint um kvöldið bættist heill hellingur við hópinn, m.a. 25 krakkar frá Belgíu, 18 krakkar frá Þýskalandi og 4 frá Tælandi. Á komunámskeiðinu sjálfu fórum við í allskonar leiki, hlustuðum á fyrirlestra um Perú, fengum afrit af vegabréfunum, fengum AFS boli, borðuðum góðan mat, fórum í sundlaugina (sem var ísköld) og höfðum líka frían tíma sem við notuðum til að kynnast krökkum frá öllum heimshornum. Þetta var mjög skemmtilegt og ég hlakka til að hitta alla aftur í lok ársins.

Á laugardaginn, eftir miklar myndatökur, var okkur svo skipt í hópa eftir borgum. Við erum fimm í Trujillo. Ég, Valerie frá Belgíu, Sonja frá Þýskalandi og svo Kan og Oy (borið fram Ó, kann ekki að skrifa það) frá Tælandi. Við fórum ásamt krökkum sem voru að fara til fleiri borga á einhversskonar Youth Hostel í Lima þar sem við biðum eftir að rútan til Trujillo færi. Klukkan 9 um kvöldið fórum við svo á rútustöðina og hoppuðum upp í rútu til Trujillo. Þetta var svona stærsta gerð af rútu. Á tveimur hæðum með mega stórum og þægilegum leðursætum sem hægt var að leggja næstum alveg niður. Við sváfum öll alla leiðina og komum svo til Trujillo klukkan 6 í morgun eftir 9 tíma ferðalag.

Þegar við komum á rútustöðina biðu fjölskyldurnar eftir okkur með skilti og á skiltinu sem mín fjölskylda var með stóð: Bienvenido Sigmar , Velkominn Sigmar. Þau sögðu mér svo að það hefði komið upp neyðartilvik og að þau þyrftu að fara í burtu í nokkra daga. Ég er því núna hjá sjálfboðaliða frá AFS sem býr við hliðina á yfirmanni AFS í Trujillo.

Þegar þetta er skrifað er ég nýkominn heim af fótboltaleik í Copa Perú þar sem Trujillo var að keppa við einhverja aðra borg. Fótbolti er greinilega mjög vinsæll hérna í Perú því þetta var næstum eins og  í miðbæ Reykjavíkur á Mennigarnótt. Fyrir utan að þarna var allt morandi í vopnuðum lögreglumönnum. Ég beið allan fyrri hálfleik í röð fyrir utan leikvanginn. Allir voru að öskra og margir héldu á litlum útvörpum og hlustuðu á leikinn á meðan þeir biðu fyrir utan. Ég sá mann múta lögreglunni fyrir að koma sér framarlega í röðina. Mér fannst það frekar skrítið að sjá.

Nú er ég enginn sérfræðingur í fótbolta en ég held ég geti fullyrt að S-Amerískur fótbolti sé töluvert frábrugðinn Evrópskum fótbolta. Mér fannst leikurinn svo hraður og töluvert mikið meira um meiðsli hjá leikmönnum. Ég held ég hafi séð svona 8 gul spjöld og 2 rauð - og ég sá bara seinni hálfleik. Leikurinn endaði 3-2 fyrir liðinu sem ég held að hafi verið frá Trujillo. Eftir leikinn brutust út allsherjar slagsmál inni á vellinum. Þá hlupu 30 vopnaðir lögreglumenn með skildi inn á völlinn og stíaði fylkingunum í sundur. Það þurfti líka að halda skjöldunum uppi yfir dómurunm þegar þeir gengu af vellinum því fólk kastaði allskonar mat og ógeði að þeim. Allt í allt skemmtilegasti fótboltaleikur sem ég hef horft á :-) Því miður gleymdi ég myndavélinni svo þið fáið ekki að sjá neinar myndir frá fótboltaleiknum :-(

Á morgun skilst mér að við séum að fara að kaupa skólabúning handa mér. Það verður gaman að sjá hvort þeir eigi einhvern í minni stærð þar sem ég er a.m.k. höfðinu hærri en flest allir hérna. Svo förum við að skoða skólann á þriðjudaginn. Ég og Kan frá Tælandi förum í sama skóla.

Að lokum vil ég óska þeim sem nenntu að lesa þetta allt til hamingju með að vera komin á leiðarenda.

Chao!

þriðjudagur, 12. júlí 2011

Fjölskyldan

Nú er ég búinn að fá staðfestingu á fjölskyldu í Perú. Stelpan sem hafði samband við mig gegnum facebook heitir Carolina og ég mun vera hjá fjölskyldunni hennar í borginni Trujillo. Trujillo er borg í norðurhluta Perú, 560 km frá Lima.

Fjölskyldan samanstendur af Walter (pabbi), Rosa (mamma), Carolina (systir) og Zulema (systir). Walter og Rosa reka verslun en Walter er menntaður verkfræðingur. Carolina er í háskóla og Zulema í grunnskóla. Þau eiga hund og kött og ég fæ mitt eigið herbergi. Þau hafa tekið þrjá aðra skiptinema: Mathieu frá Belgíu, Lea frá Sviss og Sulian frá Þýskalandi. Enginn í fjölskyldunni reykir og á heimilinu er ekki heitt vatn og internet.

Ég fékk mynd af þeim sem ég get ekki "copy-að" (tæknilegir örðugleikar) en ég set eitthvað hérna inn um leið og ég finn út úr því.

-Sigmar