mánudagur, 19. september 2011

Hola a todos!



Nú er rúm vika frá síðasta bloggi og tímabært að búa til annað.

Á mánudaginn fór ég með Vila í skólann minn. Tilgangur ferðarinnar var  tvíþættur. Annars vegar að koma Sonju frá Þýskalandi í skólann og hins vegar að finna skólabúning fyrir mig. Það var ekkert mál að fá skólastjórann til að taka við Sonju en það gekk ekki alveg eins vel með að finna skólabúning. Eins og þið kannski vitið þá er S-Amerískt fólk í flestum tilfellum ekki svo hávaxið. Það var því lítið um föt sem pössuðu á mig. Ég gat þó fundið stuttbuxur og stuttermabol fyrir íþróttatíma. Seinni part mánudagsins var fundur heima hjá Vila með öllum skiptinemunum á svæðinu og fjölskyldum þeirra. Eftir fundinn fór ég heim með fjölskyldu Kan frá Tælandi. Alida sem ég var hjá býr bara ein og getur ekki komið mér í skólann á morgnana. Á heimilinu hennar Kan búa Jorge (pabbinn), Patricia (mamman), Rosa (systir - 15 ára), Melanie (systir - 11 ára) og Francesco (bróðir - 9 ára). Það er gott að vera kominn til fjölskyldu, meira líf á heimilinu.

Á miðvikudaginn var fyrsti dagurinn í skólanum. Það var eiginlega frekar crazy! Fyrir það fyrsta þá eru allir í skólabúningum. Mér leið svolítið eins og ég væri í Hogwarts. Skólabúningar eru samt frekar sniðugir. Maður þarf aldrei að hugsa um í hverju maður ætli að fara, það er ekkert val. Í ljósi þess að ég er hvítur og hávaxinn þá leið mér svolítið eins og dýri í dýragarði þarna. Allir voru að stara á mig og spyrja mig spurninga eins og: Hvað heitirðu? Hvaðan ertu? Hvar í ósköpunum er Ísland? Þetta var samt bara gaman og allir ótrúlega vingjarnlegir. Landafræðitíminn var frekar fyndinn. Við eyddum öllum tímanum í að horfa á youtube-myndbönd um hvernig múslimar eru að taka yfir heiminn með því að eignast mikið af börnum. Kennarinn, Alfredo, hefur greinilega miklar áhyggjur af þessu (ég skildi myndböndin af því að það var enskur texti).

Á fimmtudaginn var einhver uppákoma. Allir fjórðubekkir (ég er í 4.A) komu saman í samkomusalnum í skólanum og allir byrjuðu að syngja. Þegar þau voru búin að syngja sama lagið svona 4-5 sinnum fóru allir aftur í stofurnar sínar og dagurinn hélt áfram. Ég held að þetta hafi verið æfing fyrir einhverja keppni en það er ekki staðfest... Á leiðinn heim úr skólanum stoppuðum við hjá manni sem var að selja ananas (piño) úti á götu. Þetta var án efa besti ananas sem ég hef smakkað. Ávextirnir hérna eru almennt mjög góðir. Þar sem drykkjarvatn er frekar dýrt drekka Perúbúar mikið af ávaxtadjús og þá er ég ekki að tala um svona fernudjús sem mauður kaupir í Bónus heldur djús úr ferskum ávöxtum sem er búinn til heima. Mjög góðir.

Ég skil frekar lítið af því sem gerist í skólanum. Kennararnir tala og tala á hraðri spænsku og ég sit bara og læt líta út fyrir að ég viti hvað sé í gangi. Það er samt bara eðlilegt og kemur allt með tímanum :)

Á föstudaginn var DJ keppni í skólanum eftir skóla. Öllum nemendunum var safnað saman í portinu og svo kom fulltrúi frá hverjum árgangi og DJ-aði. Frekar fyndið að vera í trúarbragðatíma aðra stundina og svo á DJ keppni hina. Flippaður skóli.

Á laugardagskvöldið fór ég með fjölskyldunni á Plaza de Armas, aðaltorg Trujillo (sjá mynd).



Það er mjög gaman að koma niður í miðbæinn. Fullt af flottum byggingum frá nýlendutíma Spánverja, fullt af fallegum styttum og ýmislegt að gerast. Þegar við vorum að rölta um torgið tóku nokkrir söngelskir háskólanemar í sérstökum búningum sig til og byrjuðu að syngja og spila fyrir okkur. Þeir spiluðu allskonar þjóðleg perúsk lög. Á öðrum stað á torginu voru nokkrir strákar að breika. Eftir að hafa rölt um miðbæinn fórum við út að borða á stað sem býður upp á perúska kjúklingarétti, mjög gott :)

Í gær fórum við í kirkju, nánar tiltekið gulu dómkirkjuna sem þið sjáið á myndinni hérna fyrir ofan. Hún er fallega að utan en mikið fallegri að innan. Eftir messu fórum við heim og slöppuðum af restina af deginum.

Þetta er svona það helsta sem hefur á daga mína drifið undanfarið :)

Chao!

sunnudagur, 11. september 2011

Hola todos!

Ég var búinn að lofa að vera duglegur að blogga þannig að það er best að byrja...

Ferðalagið frá Íslandi gekk vel. Við Guðbjartur hittumst í Leifsstöð og tékkuðum okkur saman inn. Svo fengum við okkur að borða og eitthvað svona sem maður gerir á flugvöllum. Ferðinni var heitið til New York (Nueva York). Þegar við lentum í NY eftir 6 tíma flug (hélt það ætti að vera 5 tímar) þá beið okkar endalaus röð til að komast að útlendingaeftirlitinu. Við biðum örugglega í tæpa 2 tíma í þyngsta lofti í heimi, með lágt til lofts og svo var allt troðið af sveittum útlendingum í þokkabót (við vorum ekki sveittir útlendingar). Þegar ég var búinn að láta  starfsmann útlendingaeftirlitsins fá fingraför af öllum fingrum og hann búinn að taka af mér mynd gátum við loksins náð í töskurnar og ferðast með lest frá Terminal 7 til Terminal 4. Flugvélin sem við flugum með til Lima var frekar stór. Að minnsta kosti stærsta flugvél sem ég hef ferðast með. Flugið til Lima tók rétt rúma 8 tíma en ég svaf eiginlega alla leiðina.

Þegar við lentum í Lima tóku tveir sjálfboðaliðar frá AFS á móti okkur og okkur var sagt að þrír krakkar frá Bandaríkjunum hefðu verið í sama flugi og við. Eftir 3 tíma bið og vesen komust þau að því að Bandaríkjamennirnir áttu ekki að koma fyrr en daginn eftir. Við fórum svo með sjálfboðaliðunum á aðalskrifstofu AFS í Lima þar sem við biðum í aðra 3 tíma. Eftir langa bið og frekar óþægilegar dottur (að dotta) komu krakkarnir frá Frakklandi og þá fórum við Guðbjartur, Thor frá Danmörku, Rógvi frá Færeyjum og Frakkarnir á staðinn þar sem komunámskeiðið var haldið.

Seint um kvöldið bættist heill hellingur við hópinn, m.a. 25 krakkar frá Belgíu, 18 krakkar frá Þýskalandi og 4 frá Tælandi. Á komunámskeiðinu sjálfu fórum við í allskonar leiki, hlustuðum á fyrirlestra um Perú, fengum afrit af vegabréfunum, fengum AFS boli, borðuðum góðan mat, fórum í sundlaugina (sem var ísköld) og höfðum líka frían tíma sem við notuðum til að kynnast krökkum frá öllum heimshornum. Þetta var mjög skemmtilegt og ég hlakka til að hitta alla aftur í lok ársins.

Á laugardaginn, eftir miklar myndatökur, var okkur svo skipt í hópa eftir borgum. Við erum fimm í Trujillo. Ég, Valerie frá Belgíu, Sonja frá Þýskalandi og svo Kan og Oy (borið fram Ó, kann ekki að skrifa það) frá Tælandi. Við fórum ásamt krökkum sem voru að fara til fleiri borga á einhversskonar Youth Hostel í Lima þar sem við biðum eftir að rútan til Trujillo færi. Klukkan 9 um kvöldið fórum við svo á rútustöðina og hoppuðum upp í rútu til Trujillo. Þetta var svona stærsta gerð af rútu. Á tveimur hæðum með mega stórum og þægilegum leðursætum sem hægt var að leggja næstum alveg niður. Við sváfum öll alla leiðina og komum svo til Trujillo klukkan 6 í morgun eftir 9 tíma ferðalag.

Þegar við komum á rútustöðina biðu fjölskyldurnar eftir okkur með skilti og á skiltinu sem mín fjölskylda var með stóð: Bienvenido Sigmar , Velkominn Sigmar. Þau sögðu mér svo að það hefði komið upp neyðartilvik og að þau þyrftu að fara í burtu í nokkra daga. Ég er því núna hjá sjálfboðaliða frá AFS sem býr við hliðina á yfirmanni AFS í Trujillo.

Þegar þetta er skrifað er ég nýkominn heim af fótboltaleik í Copa Perú þar sem Trujillo var að keppa við einhverja aðra borg. Fótbolti er greinilega mjög vinsæll hérna í Perú því þetta var næstum eins og  í miðbæ Reykjavíkur á Mennigarnótt. Fyrir utan að þarna var allt morandi í vopnuðum lögreglumönnum. Ég beið allan fyrri hálfleik í röð fyrir utan leikvanginn. Allir voru að öskra og margir héldu á litlum útvörpum og hlustuðu á leikinn á meðan þeir biðu fyrir utan. Ég sá mann múta lögreglunni fyrir að koma sér framarlega í röðina. Mér fannst það frekar skrítið að sjá.

Nú er ég enginn sérfræðingur í fótbolta en ég held ég geti fullyrt að S-Amerískur fótbolti sé töluvert frábrugðinn Evrópskum fótbolta. Mér fannst leikurinn svo hraður og töluvert mikið meira um meiðsli hjá leikmönnum. Ég held ég hafi séð svona 8 gul spjöld og 2 rauð - og ég sá bara seinni hálfleik. Leikurinn endaði 3-2 fyrir liðinu sem ég held að hafi verið frá Trujillo. Eftir leikinn brutust út allsherjar slagsmál inni á vellinum. Þá hlupu 30 vopnaðir lögreglumenn með skildi inn á völlinn og stíaði fylkingunum í sundur. Það þurfti líka að halda skjöldunum uppi yfir dómurunm þegar þeir gengu af vellinum því fólk kastaði allskonar mat og ógeði að þeim. Allt í allt skemmtilegasti fótboltaleikur sem ég hef horft á :-) Því miður gleymdi ég myndavélinni svo þið fáið ekki að sjá neinar myndir frá fótboltaleiknum :-(

Á morgun skilst mér að við séum að fara að kaupa skólabúning handa mér. Það verður gaman að sjá hvort þeir eigi einhvern í minni stærð þar sem ég er a.m.k. höfðinu hærri en flest allir hérna. Svo förum við að skoða skólann á þriðjudaginn. Ég og Kan frá Tælandi förum í sama skóla.

Að lokum vil ég óska þeim sem nenntu að lesa þetta allt til hamingju með að vera komin á leiðarenda.

Chao!