föstudagur, 2. mars 2012

Sumarfrí og ferðalög

Nú er orðið allverulega langt síðan ég settist síðast niður og skrifaði blogg (einhvern tímann á síðasta ári). En nú ætla ég að bæta úr því og segja ykkur frá því sem á daga mína hefur drifið hérna fyrir sunnan.

Áramótin voru frekar viðburðalítil. Á gamlársdag klæða allir sig í eitthvað gult vegna þess að það veitir víst heppni að fara inn í nýja árið í gulu :) Klukkan 12:00 skáluðum við í kampavíni og óskuðum hver öðru gleðilegs nýs árs. Svo settumst við niður og fengum okkur Las doce uvas (vínberin tólf) sem eiga líka að veita heppni og velgengni, pan con chancho (samlokur með svínakjöti), panetón (jólakakan góða) og chocolate caliente (heitt súkkulaði). Þegar þessu var lokið settumst við niður fyrir framan sjónvarpið og spjölluðum fram eftir nóttu. Það var eitthvað smá um flugelda en við sprengdum samt ekki neitt. Saknaði mikið skotlgleði Íslendinga!

Janúarmánuður var frekar rólegur. Ég hélt áfram að dansa marinera og salsa, fór á ströndina, fór á brimbretti, skipulagði ferðalög febrúarmánaðar og slappaði af. Mestallur janúar leið bara svona lullandi í sólinni. Ég tók samt þátt í einni marinerakeppni á vegum dansskólans míns þar sem við Zulema lenntum í öðru sæti. Danskennarinn veitti mér líka sérstaka viðurkenningu fyrir að hafa lagt metnað og áhuga í þennan þjóðardans Perú :)

Það var miklu meira um að vera í febrúar.

Þann 4. febrúar kom Guðbjartur, hinn íslenski srákurinn á vegum AFS í Perú, í heimsókn til mín hérna í Trujillo. Hann á sjálfur heima í Piura sem er um 7-8 tíma norður af Trujillo. Kvöldið sem hann kom fórum við familían með hann á Ramiro's (Veitingastaðurinn) og hann, eins og allir aðrir sem koma á þennan stað, varð strax ástfanginn af staðnum. Hann var svo hjá mér í viku og ég sýndi honum allt það helsta sem Trujillo hefur upp á að bjóða. Við kíktum í mollin, hann kom með mér í salsatíma, við fórum á brimbretti í Huanchaco, kítkum í bíó o.fl. Hann fékk mig svo tvisvar með sér í ræktina... Mig verkjaði í allan líkamann marga daga eftir á. Enda ekki mikill áhugamaður um líkamstæktarstöðvar.

Þann 11. febrúar byrjaði svo AFS-ferðin um N-Perú og krakkar frá öllu landinu flykktust til Trujillo.

Á laugardeginum var stefnan sett á Complejo Arqueológico El Brujo (Fornminjasvæðið El Brujo). Við skoðuðum þar Huaca Cao þ.e. musterið sjálft og svo líka safnið sem stendur við hlið musterisins. Þetta er allt eitthvað sem ég er búinn að skoða áður en samt gaman að skoða aftur og skilja loksins það sem leiðsögumaðurinn er að segja.

Á sunnudeginum fórum við fyrst að skoða Huaca del Sol y la Luna. Fleiri forn musteri frá tíma Mochica menningarinnar sem var ríkjandi á þessu svæði fyrir hundruðum ára. Eftir að skoða allt vel og vandlega og kaupa nokkra vel valda minjagripi héldum við til Chan Chan. Chan Chan er forn borg frá tímum Chimú menningarinnar sem var ríkjandi á svæðinu eftir Mochica menningunni og fram að innrás Inkanna. Eins og fyrri daginn var þetta allt eitthvað sem ég var búinn að sjá áður en samt sem áður áhugavert. Eftir Chan Chan settum við stefnuna á Huanchaco þar sem við fengum okkur hádegismat og fórum svo á ströndina. Við vorum á ströndinni fram á kvöld og snerum svo aftur til Trujillo. Um kvöldið fórum við Guðbjartur með fjölskyldunni á Ramiro's sem var ljúffengt eins og alltaf :)

Á mánudagsmorgun fór allur hópurinn í sögugöngu um miðbæ Trujillo. Flest húsin í miðbænum eru í nýlendustíl og mikið að skoða þar. Eftir gönguna fórum við aftur á hótelið til að almorzar (hádegismatast). Eftir að hafa hádegismatast fórum við á rútustöðina til að fara til næstu borgar sem var Chiclayo. Chiclayo er um 4 tíma norður af Trujillo. Við komum til Chiclayo um kvöldið, tékkuðum okkur inn á hótelið og fórum svo út að borða.

Daginn eftir lögðum við af stað í tveimur minirútum til Túcume í Lambayece. Þar eru musteri og fornminjar frá tíma Mochica. Við kíktum fyrst á safnið og svo á svæðið sjálft sem samanstendur af fullt af musterum og byggingum frá þessum tíma. Hitinn var rosalegur og allir að kafna. Ég myndi skjóta á svona 35 gráður. Við klifum eitthvað lítið fjall til að hafa útsýni yfir allt svæðið sem var rosa flott. Eftir Túcume og 2 lítra af vatni á mann fórum við á safnið um El Señor de Sipán. Hann fannst grafinn í einvherju musteri með fullt af gulli og dóti sem er til sýnis á safinu. Eftir safnið borðuðum við hádegismat og fórum svo á Pimentel ströndina. Um kvöldið fórum við svo aftur til Chiclayo, fengum okkur að borða og skelltum okkur á diskótek.

Á miðikudeginum fórum við að skoða Reserva Ecológica Chaparrí (einskonar verndað svæði). Þegar við komum á svæðið skiptum við okkur upp í 3 hópa, hver hópur með sinn leiðsögumann. Minn var Don Pedro, eldgamall karl með sinn eigin skóg á höndunum (mjög loðinn). Við fórum í gönguferð um hluta svæðisins og sáum meðal annars ýmsa kaktusa, fulga, froska, köngulær, snáka, villisvín og birni. Við snerum svo aftur til Chiclayo og fengum okkur hádegismat. Seinni partinn notuðum við til að rölta um bæinn og um kvöldið fórum við með rútu til næstu borgar, Tumbes. Tumbes er borg næstum alveg við landamæri Perú og Ekvador. Ég var svo óheppinn að lenda við hliðina á einhverum feitum náunga sem tók rosa mikið pláss og hraut hátt í þokkabót þannig að ég svaf ekki mjög vel á leiðinni...

Snemma á fimmtudagsmorgun komum við til Tumbes og þar tók Frank, forseti AFS í Tumbes, á móti okkur. Við fórum beint á hótelið, tékkuðum okkur inn og fengum okkur svo morgunmat. Þennan daginnn var ferðinni heitið til Puerto Pizarro. Þar fórum við um borð í lítla báta sigldum um eyjarnar í kring. Við tókum fyrsta stoppið á lítilli eyju með krókódílagarði. Þar sáum við krókódíla af öllum stærðum og gerðum. Næst fórum við framhjá eyjum með rosalega miklu fuglalífi. Ég held ég hafi sjaldan séð svona marga fugla samankomna á einum stað. Næsta stopp var á lítilli eyju þar sem við gátum farið að synda. Þeir sem vildu gátu svo synt yfir á næstu eyju og til baka. Eftir sundsprettinn snerum við aftur til Puerto Pizarro og fengum okkur hádegismat. Seinni partinn snerum við svo aftur til Tumbes og um kvöldið fórum við á diskótek.

Á föstudagsmorgun lögðum við að stað í átt að Brúna lóninu, þ.e. þremur drullupyttum sem hægt er að baða sig í. Það á víst að vera rosa gott fyrir húðina að vera allur út í drullu þó ég leyfi mér að efast um þær staðhæfingar. Við skelltum okkur að sjálfsögðu ofan í og urðum vel drullug. Eftir langt drullubað fórum við á stöndina Zorritos. Ég er ekki frá því að þetta sé skemmtilegasta og fallegasta strönd sem ég hef komið á. Ekkert grjót á botninum, lítið af fólki og risa öldur. Við skemmtum okkur heillengi á ströndinni og þrátt fyrir að hafa sett þrisvar á mig sólarvörn 60+ brann ég svona líka skemmtilega illa á öxlunum og bakinu. Enda hélt ég að axlirnar ætluðu hreinlega að flagna af mér dagana eftir þetta. Um kvöldið tók ég svo rútu til baka til Trujillo.

Ég kom snemma á laugardagsmorgninum til Trujillo eftir 12 tíma rútuferð frá Tumbes. Ég eyddi deginum í að slaka á og bera á mig after sun og aloe vera. Seinni partinn tók ég svo aftur saman dót og um kvöldið fór ég með Rosu, Carolinu og Zulemu (mömmu, systur, systur) til Cajamarca. Cajamarca er borg í 3000 metra hæð yfir sjávarmáli í miðjum Andesfjöllunum.

Við komum til Cajamarca um 5leytið, fórum beint á hótelið go sváfum fram á morgun. Þegar við svo loksins vöknuðum fórum við og keyptum okkur miðana heim og fengum okkur morgunmat. Síðan tók við skrúðgangan í tilefni karnavalsins í Cajamarca sem var akkúrat um þessar mundir. Skrúðgangan var rosa flott og skrautleg. Á karnavalinu í Cajamarca er mikil hefð fyrir því að bleyta aðra annað hvort með vatnsbyssum, vatnsblöðrum eða jafnvel fötum. Við fengum alveg okkar skamt af því og sérstaklega ég þar sem ég er "gringo". Í hádeginu fórum við á veitingastað til að almorzar (hádegismatast). Seinni partinn rigndi alveg rosalega enda er rigningatímabil í fjöllunum um þessar mundir. Við eyddum svo kvöldinu í að rölta um miðbæinn í rigningunni.

Á mánudeginum fórum við að skoða Las Ventanillas de Otuzco sem eru fornar grafir í rosa fallegu sveita-umhverfi. Eftir það fórum við að Baños del Inca. Þar eru heitar uppsprettur sem Inkarnir notuðu til að baða sig í. Þar sáum við líta sérstaka baðaðstöðu Atahualpa sem var síðasti leiðtogi Inkaveldisins eða Tahuantinsuyu eins og þeir kölluðu það. Við fegnum okku svo hádegismat í þorpinu og snerum aftur til Cajamarca. Við komumst ekki nema rétt inn í bæinn þar sem skrúðgangan stíflaði allt. Við þruftum að troða okkur inn  og labba meðfram skrúðgöngunni í lengri tíma því að fólkið vildi ekki hleypa okkur framhjá. Á endanum náðum við þó að sannfæra einhvern señor um að helypa okkur framhjá því að við þyrftum að ferðast (þó það hafi ekki verið fyrr en um kvöldið, við vorum bara svo þreytt af allri göngunni). Seinna um daginn tókum við smá rölt um bæinn og ég keypti mér tvær húfur og sokka úr llama-ull og svo ponco úr alpaca-ull. Um kvöldið héldum við svo heim til Trujillo.

Um kvöldið þann 23. febrúar lagði ég svo af stað í næsta ferðalag. Núna var ferðinni heitið til borgarinnar Iquitos sem er staðsett í miðjum Amazon-frumskóginum.

Snemma á föstudagsmorgninum komum við til Lima eftir 9 tíma ferð frá Trujillo. Við biðum eftir fleiri krökkum sem ætluðu með okkur og fórum svo út á flugvöll vegna þess að það er einginn vegur sem liggur til Iquitos. á flugvellinum hittum við svo enn fleiri krakka sem ætluðu líka að ferðast með okkur. Allt í allt var þetta 17 manna hópur sem fór saman. Klukkan 13:30 settumst við upp í flugvél frá StarPerú og lögðum af stað. Eftir stutt stopp í Tarpoto lentum við seinni partinn í Iquitos. Við tékkuðum okkur inn á hótelið, fengum okkur kvöldmat og skelltum okkur svo á diskótek um kvöldið.

Morguninn eftir heimsóttum við Mike vin okkar sem leigði okkur stígvél fyrir áætlaða frumskógarferð. Mike er náungi frá Bretlandi sem býr í Iquitos og gefur út Iquitos Times á ensku. Skemmtilegur náungi með skemmtilega breskan hreim. Þegar allir voru komnir með stígvél kvöddum við Mike og fórum á Nanay höfnina. Þar fórum við upp í lítinn bát sem fór með okkur inn í frumskóginn á Amazon-ánni. Við stoppuðum í litlu þorpi og tókum göngu í gegnum skóginn að "jungle logde-inu" okkar. Á leiðinni sáum við ýmis skordýr, snáka og fullt af plöntum og ferskum ávöxtum sem við borðuðum beint af trjánum, verður ekki mikið ferskara. Þegar við komum á logde-ið fengum við okkur hádegismat sem var fiskur sem heitir á spænsku el dorado og steikt krókódílakjöt. Bæði alveg ljúffengt.  Eftir hádegismat tók við smá afslöppun. Eftir að hafa dottað smá stund í hengirúmunum fórum við aftur í bátinn. Ferðinni var heitið að einskonar dýragarði þar sem dýrin eru samt alveg frjáls, þ.e. engin búr. Þar lékum við okkur með öpunum sem eru einstaklega skemmtileg dýr, ég lét taka mynd af mér með Boa slöngu á hálsinum og letidýr í fanginu, sáum fullt af páfagaukum og fleiri fuglum og margt fleira. Þegar fór að nálgast sólsetur skelltum við okkur í ána og enduðum því daginn syndandi með pirañafiskunum í Amazon-ánni við sólsetur. Alveg mögnuð upplifun! Á meðan þér er ekki að blæða út og þú pissar ekki í ána eru pirañafiskarnir ekkert hættulegri en hver annar fiskur. Þegar við vorum búin að baða okkur fórum við aftur á logde-ið og borðuðum kvöldmat. Í matinn var hefðbundið reykt svínakjöt sem þeir borða víst rosa mikið þarna í frumskóginum, ótrúlegt en satt. Seinna um kvöldið sögðu leiðsögumennirnir okkur sögur úr skóginum og svo fóru allir þreyttir en sælir að sofa.

Daginn eftir heimsóttum við hóp af Yahua indíánunum sem eru einn af fjölmörgum ættbálkum sem búa á Amazonsvæðinu. Þau buðu okkur velkomin á Yahua (tungumálinu sínu), kenndu okkur svo dansana sína og leyfðu okkur að prufa að skjóta eiturpílum. Markmiðið var að hitta trégrímu sem þau hengdu upp. Leiðsögumaðurinn sem er að hluta til Yahua indíáni sagði okkur frá því að til að verða Yahua leiðtogi þarf að vera yfirburðagóður veiðimaður og æðstu mennirnir í ættbálknum fá að taka sér 6-8 konur. Ég hitti næstum því í grímuna og þá sagði leiðsögumaðurinn í gríni að ég væri með svona 3 kvenna hittni. Eftir mjög áhugaverða heimsókn fórum við aftur í lodge-ið og fengum okkur hádegismat en þar sem mér var aðeins illt í maganum eftir matinn daginn áður borðaði ég eiginlega ekkert. Eftir matinn fórum við svo á pirañaveiðar. Við fengum hefbundnar tálgaðar tréstangir eins og infæddir nota og reyndum að veiða pirañafiska en því miður veiddist ekkert... Eftir misheppnaða veiðiferð héldum við áfram á bátnum að ármótum Amazon og Nanay ánna. Þar sem þessar ár koma saman er mikið upprót á botninum og því góðar aðstæður til að sjá bleika höfrunga og þá fengum við aldeilis að sjá. Stórar og flottar skepnur. Við snerum svo aftur til Iquitos eftir ógleymanlega ferð í frumskóginn.

Á mánudaginn fórum við á Belén markaðinn sem er stærsti markaðurinn í Iquitos. Þar er meðal annars hægt að kaupa skjaldbökukjöt, apakjöt, mauraætukjöt, krókódílakjöt og pirañafiska. Það er líka risa náttúrulækningadeild full af allskonar plöntum og sulli í flöskum. Eftir að hafa skoðað markaðinn fórum við á lítin bát og sigldum um Belén hverfið. Þar býr fólk í húsum á miðri ánni. Þetta er rosalega fátækt hverfi þar sem t.d. einungis 50% af krökkunum fara í secundaria sem er eins og seinni hluti grunnskóla á Íslandi. Í Belén búa venjulega 2-3 fjölskyldur í hverju húsi og allt í allt búa um 15.000 manns á svæðinu. Ég held að það sé óhætt að segja að það hafði mikil áhrif á okkur öll að sigla um þetta svæði. Á siglingunni sáum við líka risa vatnaliljur sem leiðsögumaðurinn sagði að væru þær stærstu í heimi. Ég efast stórlega um að akkúrat þessar hafi verið þær stærstu í heimi en þær voru samt rosa stórar. Við snerum svo aftur á hótelið og í hádeginu fengum við okkur skjaldbökukjöt í carrí, mjög gott :D Seinni partinn tókum við því bara rólega enda rigndi mikið.

Á þriðjudagsmorguninn fórum við út á flugvöll og héldum til Lima á ný eftir ótrúlega og ógleymanlega ferð í Amazon-frumskóginn. Við biðum svo í Lima fram á kvöld og fórum þá hver til sinnar borgar.

Myndir frá öllum ferðalögunum má finna á facebook-síðunni minni.

Ég vona að þetta hafi ekki verið allt of langt og ég yrði ekkert leiður ef þið skilduð eftir comment ;)

¡Hasta luego!

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.
Nafnlaus sagði...

Þetta er rosalegt! Mikið er samt skrýtið að það sé selt apakjöt! Má það??

Kv Pétur

Nafnlaus sagði...

Skemmtilegt blogg, og gaman að sjá að þú skemmtir þér vel þarna úti. Endilega vera duglegur að blogga :)
Kveðja,
Eyþór

Nafnlaus sagði...

Vá, ekkert smá skemmtilegt ferðalag. Þú ert búinn að smakka ótrúlegasta mat. Bara frábært:-)