sunnudagur, 4. desember 2011

Talandi um að tíminn sé fljótur að líða...

Þegar ég settist niður í morgun og ákvað að "uppfæra stöðuna" hélt ég að það væru svona 3 vikur kannski í mesta lagi síðan ég bloggaði síðast en neinei, það eru hvorki meira né minna en 7 vikur síðan! Talandi um að tíminn sé fljótur að líða... Eins og alltaf ætla ég að segja frá helstu atburðum sem á daga mína hefur drifið þessar 7 (en ekki 3) vikur síðan síðast.

Mánudagurinn 17. október
Fór með Rosu, mömmu, og Zulemu, systur, á stærsta markaðinn í Trujillo, Hermelinda. Þangað förum við stundum til að kaupa ávexti. Markaðurinn skiptist upp í nokkur svæði; ávaxtasvæðið, fatasvæðið, byggingavörusvæðið, nammisvæðið, kartöflusvæðið, ofl. Við fórum á ávaxtasvæðið. Ég hef aldrei á ævinni séð svona mikið af ávöxtum! Það voru bókstaflega ávextir út um allt og upp um allt. Svo er þetta allt selt í kílóatali, t.d. kostar eitt kíló af appelsínum 150 - 200 kr. fer aðeins eftir því hvað þær eru stórar. Allir ávextirnir á markaðinum eru fluttir beint úr frumskóginum og á markaðinn.

Laugardagur 22. október
Fann þetta líka fína íþróttasvæði hérna rétt hjá með hlaupabraut þannig að ég ákvað að skella mér út að hlaupa. Mjög hressandi svona í morgunsárið, reyndar líka svolítið erfitt í steikjandi sólinni. Held ég hafi sjaldan svitnað jafn mikið. Þegar ég kom heim var bara ágætt að hafa ekkert heitt vatn í sturtunni. Seinni partinn fór ég í mína fyrstu klippingu í Perú! Ég var vægast sagt mjög hræddur um að þetta myndi koma illa út. Ég varð líka frekar hræddur þegar klippikonan byrjaði að raka mig á hnakkanum og kringum eyrun með svona gamaldags rakhníf. Held ég hafi aldrei setið eins kyrr í stólnum, enda leiðinlegra að fara heim eyrnalaus. Áhyggjurnar reyndust að lokum ástæðulausar, klippingin kom fínt út og svo var ekki verra að hún kostaði bara 200 kr. Um kvöldið var svo afmælisveisla hjá Yorka, 4 ára perú-frænku minni.

Sunnudagur 23. október
Fór í morgun með Carolinu, systur, á Olympiadas hjá háskólanum hennar. Þetta eru sem sagt svona "ólympíuleikar" skólans. Það halda allir skólar og háskólar svona. Gengur þannig fyrir sig að það er keppt í ýmsum íþróttum t.d. fótbolta, körfubolta, frjálsum og blaki, milli bekkja. Mjög skemmtilegt og gott veður :) Seinni partinn átti ég svo mjög áhugavert spjall við Carolinu. Hún var að segja mér að meirihluti perúbúa giftir sig ekki. Hún sagði að það væri svo mikið um misheppnuð hjónabönd að fólk væri ekkert að hafa fyrir því að gifta sig. Áhugaverð nálgun hjá þeim...

Laugardagur/Sunnudagur 29/30. október
Laugardagsmorgun fór ég í skólann af því að það var einhvers konar fjölskylduhátíð. Þar hitti ég Sonju og Can, AFS stelpurnar sem eru með mér í skóla. Þarna varu allskonar básar, handverkshorn, dans, söngur, Can kenndi yoga o.fl. Seinni partinn bakaði ég kryddkökur til að fara með á AFS hitting þar sem allir áttu að koma með eitthvað frá sínu landi. Hráefnið var ekki alveg það sama og á Íslandi og ofninn allt öðruvísi plús það að ég er enginn bakarameistari, langt því frá! Það var því eiginlega bara mjög eðlilegt að ég hafi næstum kveikt í eldhúsinu með fyrstu plötunni sem fór inn í ofn. Ég sat inni í stofu og fann einhverja skrýtna lykt og þegar ég fór inn í eldhús til að athuga málið stóð svartur reykur út úr ofninum. Ég flýtti mér náttúrulega að slökkva á græjunni og opna alla glugga enda var orðið töluvert vond reykjarfýla í eldhúsinu. Hinar plöturnar tókust samt alveg ágætlega. Um kvöldið fór ég heim til Vilu (forseta AFS í Trujillo) þar sem ég hitti hina skiptinemana og sjálfboðaliðana í Trujillo. Mæting var klukkan 7, sem þýddi að sjálfsögðu að síðustu sjálfboðaliðarnir voru að detta inn klukkan 8:30 - 9:00, týpískt fyrir perúbúa. Við fórum svo til Huanchacito sem er lítið þorp milli Trujillo og Huanchaco (þar sem ströndin er). Þar fórum við í einhverja leiki, kveiktum varðeld, borðuðum mat frá öllum löndunum (kökurnar mínar þóttu afbragðsgóðar), sungum og spjölluðum til svona 4:30, þá fórum við að sofa en þar sem það voru engar dýnur í húsinum sváfum við bara í svefnpokunum á hörðu gólfinu. Ég verð að viðurkenna að ég var pínu stirður í skrokknum þegar ég vaknaði. Um morguninn löbbuðum við svo meðfram ströndinni frá Huanchacito til Huanchaco þar sem við borðuðum bruch og fórum aðeins á ströndina. Svo fóru allir til síns heima.

Þriðjudagur 1. nóvember
Í dag var frídagur og í tilefni þess fórum við öll til Otuzco sem er þorp uppi í fjöllunum, um 2 klst. frá Trujillo. Ótrúlega fallegt þarna uppi. Allstaðar ræktun, ég sá t.d. ananasakra í fyrsta skipti. Þegar við komum til Otuzco röltum við aðeins um bæinn, fórum svo á veitingastað og fengum okkur almuerzo (hádegismat). Maturinn var að sjálfsögðu stórgóður. fórum svo að skoða kirkjuna sem er mjög stór og ég skellti mér á llama-bak. Keypti mér líka ullarhúfu og vettlinga með llama-munstri. Um kvöldið snerum við svo aftur til Trujillo eftir góðan dag.

Fimmtudagur 3. nóvember
Eftir skóla fór ég á marinera-æfingu eins og alla aðra þriðju-, fimmtu-, og föstudaga en í dag ákvað kennarinn að láta okkur dansa endalaust. Eftir 3 tíma (venjulega erum við klukkutíma) sagðist ég þurfa að fara heim, enda stóð ég varla í lappirnar ég var svo þreyttur. Marinera er dans sem reynir mjög á líkamlegt þol. Um kvöldið fórum við svo út að borða á Veitingastaðnum, sem heitir víst Ramiros.

Laugardagur 5. nóvember
Um hádegið fór ég að sjá argentískan þjóðdansahóp. Þau dönsuðu fullt af flottum dönsum m.a. argentískan tangó. Svo buðu þau áhorfendum í dans og ég tók að sjálfsögðu sporið með þeim :) Um kvöldið var mér boðið út að borða með hópnum. Fórum á fínan veitingastað og borðuðum góðan mat.

Fimmtudagur 10. nóvember
Þegar ég kom heim úr skólanum var pakkinn frá Íslandi kominn. Mjög gaman að fá íslenskt nammi. Perúska nammið er ekkert sérstakt. Í pakkanum var líka bréf og svo mynd sem Unnur systir teiknaði, ekkert smá sætt.

Sunnudagur 13. nóvember
Í dag tók ég þátt í fyrsta "maraþoninu" mínu. Hljóp reyndar ekki nema 6,5 km, en samt... Hlaupið byrjaði á Plaza de Armas (aðaltorgið í bænum) og við hlupum á Av. España, hringlaga gata sem nær hringinn í kringum allan miðbæinn. Hlaupið endaði svo á Estadio Mansiche, aðal-leikvangurinn í Trujillo. Ég stóð mig bara nokkuð vel, veit reyndar ekki í hvaða sæti ég var en held að það hafi verið svona topp 25 af 300 sem tóki þátt.

Laugardagur 19. nóvember
Um morguninn fór ég með Sonju og Can til Huanchaco. Við fórum á ströndina í góða veðrinu og fengum okkur svo cebiche og chicharrones, mjög góður perúskur matur! Þegar ég kom heim seinni partinn sátu Mexíkani og Argentínubúi í stofunni. Þau eru sem sagt par sem eru að ferðast frá Mexíkó til Argentínu. Þegar þau voru í Tumbes (bær við landamæri Perú-Ekvador) var öllum peningunum þeirra stolið. Þau voru sem sagt allslaus. Þau húkkuðu sér far til Trujillo og voru á röltinu þegar þau komu að búðinni sem foreldrar mínir eiga. Það endaði þannig að pabbi bauð þeim heim til okkar í hádegismat. Seint um kvöldið fórum við á rútustöðina og keyptum fyrir þau miða til Lima. Þar ætla þau að koma sér í argentíska sendiráðið til að fá hjálp við að komast til Argentínu. Mikið ævintýri.

Laugardagur 26. nóvember
Fór með Sonju og Rommy, skiptinemi frá Belgíu, á brimbretti í fyrsta skipti á ævinni. Það var virkilega skemmtilegt og líka miklu auðveldara en ég hefði nokkru sinni haldið. Í lok tímans vorum við öll farin að standa á brettunum í litlum öldum. Ætla pottþétt að gera meira af þessu.

Mánudagur 28. nóvember
Fór með marinerakennaranum mínum til klæðskera sem ætlar að sauma á mig marinera dress. Ég ætla nefnilega að taka þátt í keppni þann 11. desember. Þetta er keppni fyrir þá sem hafa aldrei keppt áður í marinera. Held að þetta verði bara gaman. Þegar við vorum búnir að tala við klæðskerann og láta mæla mig allan fórum við til skósmiðs sem ætlar að smíða marineraskó fyrir mig.

Laugardagur 3. desember
Í dag fór ég aftur á brimbretti en fyrst hitti ég Rommy, Sonju og Meike (þjóðverji) í Huanchaco þar sem við fengum okkur papa rellena og picarones, meiri perúskur matur :) Eftir matinn skelltum við okkur svo í sjóinn. Kennarinn okkar sagði okkur svo frá því að í sumar (janúar-febrúar) verður brimbrettaskólinn með frí námskeið fyrir fátæk börn og hann spurði okkur hvort við vildum hjálpa til. Við vorum að sjálfsögðu til í það. Um kvöldið fór ég svo með fjölskyldunni út að borða á Ramiros.

Eins og þið sjáið hafa þessar 7 vikur verið frekar rólegar, lífið er komið í svona nokkuð fastar skorður. Skólinn fer alveg að klárast, held meira að segja að ég fari í sumarfrí næsta föstudag svo byrjar skólinn aftur einhvern tímann í byrjun mars. Ekki slæmt :)

¡Hasta luego!

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gaman að heyra Sigmar minn hvað þú ert búin að vera gera. Ekkert smá mikið og spennandi. Gangi þér vel:-)
Knús mamma

Nafnlaus sagði...

Er orðlaus yfir fábreytni lífs míns

kv Pétur