fimmtudagur, 29. desember 2011

Dans, jólin o.fl.

Vil byrja á því að óska ykkur sem eigið eftir að lesa þetta gleðilegra jóla og gæfuríks nýs árs. Svona þar sem við munum að öllum líkindum ekki hittast neitt yfir hátíðarnar.

Annars er ýmislegt búið að gerast síðan síðast og eins og alltaf ætla ég að segja frá því helsta, annars yrði ég mörg ár að skrifa þetta blogg.

Helgin 10. - 11. desember var sannkölluð danshelgi.
Á laugardeginum var hádegisverður í Club Libertad í boði Marinerasambands Perú. Þar voru samankomnir allir helstu einstaklingar marinera-heimsins. Þar sem danskennarinn minn er fyrrverandi meistari og rekur skóla var okkur boðið. Þarna sýndu bæði Perú- og heimsmeistarar í öllum aldurshópum og eftir sýninguna var hlaðborð af ýmsum gómsætum perúskum réttum.
Á sunnudeginum var svo keppni. Þegar kennarinn spurði okkur, tveimur vikum áður, hvort við vildum taka þátt í keppni hugsaði ég með mér. "Afhverju ekki?" og við ákváðum að slá til. Ég fór til klæðskera og lét sauma á mig fötin og fékk skósmið til að smíða fyrir mig skóna. Á daginn sjálfan mættum við á svæðið og biðum svo í heila eilífð eftir að allir yngir flokkarnir kláruðu. Svo var loksins komið að okkur. Ég hélt ég myndi míga á mig ég var svo stressaður. Ég hef alveg oft keppt í dansi og sýnt dans en aldrei þennan dans og seinni hlutann af honum lærði ég tveimur vikum áður (marinera skiptist í fyrri hluta og seinni hluta). Allar áhyggjur reyndust samt ástæðulausar, lagið var þægilega langt (sum lög er mjöööög löng) og að lokinni fyrstu umferð vorum við og annað par jöfn í efsta sæti þannig að við tók bráðabani. Bráðabananum lauk þannig að við unnum með fullt hús stiga!* Ég fékk þetta líka fína dót til að hengja á brjóstkassann í verðlaun.

*Kannski rétt að taka fram að við kepptum í flokknum byrjendur á aldrinum 14-17 ára, en samt...


Laugardaginn 17. desember afmæli Rosu, perú-mömmu. Í fyrstu ætluðum við að halda svaka veislu með öllu tilheyrnadi en þar sem önnur systir mín er búin að vera veik ákváðum við að taka því frekar rólega. Fórum öll fjölskyldan út að borða í hádeginu á rosa góðum stað. Seinni partinn fórum við svo í mallið og keyptum smá gjöf fyrir afmælisbarnið. um kvöldið fórum svo aftur út að borða á hinum víðfræga og fjölsótta (af okkur) Ramiro's.

Jólin
Ég vaknaði um morguninn 24. des og það var nákvæmlega ekkert sem minnti á að það væru jól í dag, það var sól og steikjandi hiti... Ekki alveg það sem ég er vanur á þessum degi. Eftir hádegismat skellti ég mér í mollið þar sem ég hitti nokkra aðra AFS krakka. Við áttum að öll sameiginlegt að eiga eftir að kaupa allar jólagjafirnar! En það var samt allt í lagi vegna þess að allar búðir eru opnar á þessum degi (enda vorum við mjög greinilega ekki þau einu sem áttu jólagjafirnar eftir) og jólin byrja ekki fyrr en 12 að miðnætti. Eftir langa og stranga verslunarferð (ætla adrei aftur að kaupa jólagjafirnar á aðfangadag!) var ég kominn með eitthvað fyrir alla og gat haldið heim til að leggja mig aðeins fyrir kvöldið. Klukkan 23:30 settumst við svo við veisluborðið og hámuðum í okku pavo (kalkúnn), panetón (eins konar jólakaka) og pan con pollo (brauð með kjúkling og majónesi). Þessu var svo skolað niður með heitu súkkulaði (frekar kaldhæðnislegt í ljósi hitans). Þegar klukkan sló tólf settum við jesúbarnið á sinn stað í heimagerðu uppsetingunni af fæðingu jesú, kveiktum á blysum (innandyra!), skáluðum í kampavíni og óskuðum hvoru öðru gleðilegra jóla. Það var líka töluvert um flugelda þó svo að við hefðum ekki sprengt neitt. Þegar öllu þessu var lokið tóku við til við að opna pakkana. Ég fékk alskonar perúdót sem mun án efa prýða herbergið mitt heima á Íslandi þegar ég kem heim. Svo um tvöleytið var allt búið og við fórum að sofa.
Á jóladag eru engar sérstakar hefðir nema kannski að vera heima með familíunni og slaka af. Um kvöldið fórum við reyndar niður í miðbæ og kíktum á allar jólaskreytingarnar á Plaza de Armas.

Í dag, 29. desember, fagna Trujillobúar því að á þessum degi árið 1820 lýstu þeir yfir sjálfstæði borgarinnar frá Spáni. Í ár á Trujillo því 191 árs sjálfstæðis-afmæli. Í tilefni þessa var haldin skrúðganga með þáttöku hersins og borgarstarfsmanna. Meðal þáttakenda voru hinar ýmsu hreinsunardeildir borgarinnar, m.a. skófludeildin, hjólbörudeildin og kústadeildin sem mér fannst einstaklega frambærileg. Frekar fyndið að sjá þau marsera á eftir vopnuðum herdeildum. Svo setti leikhópur upp sjálfstæðisyfirlýsinguna á svölum ráðhúshallarinnar.

Það hlýnar alltaf og hlýnar úti, heitasti tíminn er víst janúar - febrúar - mars. Ég er líka farinn að æfa salsa þannig að það er nóg að gera.

Hasta luego!


PS. comment eru mjög vel þegin :)

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gaman að lesa bloggið hjá þér og frábært að sjá að þú skemmtir þér vel þarna úti, og gleðilega hátíð :)
Kv. Eyþór

Nafnlaus sagði...

vantar like takkan... en, vel sagt Eyþór, Er hjartanlega sammála. hlakka svo til að sjá þig á næsta ári Sigmar, og gleðilegt nýtt ár. Kv. Henrý

Nafnlaus sagði...

Hæ Sigmar!
Gleðileg jól og gott og gleðilegt nýtt ár!
Gaman að sjá hvað þú hefur það gott þarna úti, greinilega margt sem þú tekur þér fyrir hendur :)

Frábært að lesa bloggið þitt, þú segir mjög skemmtilega frá. Njóttu nú sumarfrísins (asnalegt að segja þetta þegar það er allt á kafi í snjó og hefur verið frost næstum því samfleytt frá því í lok nóvember), hlakka til að lesa meira!

Kv. Magga (frú Eyfi Kiddi)

Nafnlaus sagði...

Gleðilegt nýtt ár!

Takk fyrir góða og skemmtilega lýsingu á hátiðarhöldunum í Perú... ég get rétt ímyndað mér hve mikið öðruvísi þau eru, fyrir utan hitann og jesúbarnið í jötuna;)
Mér líst sérlega vel á salsa æfingarnar... við mamma þín og Ásta G verðum án efa fyrstu 3 að skrá okkur á námskeið hjá þér í sumar... í Íþróttahöll Hvanneyrar... hehehe:)

Hvert er svo planið fyrir sumarið??? Vonandi ekki eins og hið fyrra... vinna, vinna, vinna.... ;) Áður las ég um brimbrettakennslu... hvað er að frétta af því? Eruð þið margir nemarnir frá AFS þarna? Þið hafið þá væntanlega tækifæri til að hittast oft og gera eitthvað skemmtilegt... Eru einhver ferðalög framundan með fjölskyldunni að skoða meira af Perú eða er sumarfí almenna Perú-búans stutt/ekkert?????

Ég hlakkar til að lesa næsta blogg... þangað til, góða skemmtun!

kv Tóta - Grund-arkelling :)

Nafnlaus sagði...

Ekkert smá gaman að lesa bloggið þitt! Hafðu það sem allra best þarna úti - hlakka til að sjá þig svo næsta haust :-D

-Særós