mánudagur, 19. september 2011

Hola a todos!



Nú er rúm vika frá síðasta bloggi og tímabært að búa til annað.

Á mánudaginn fór ég með Vila í skólann minn. Tilgangur ferðarinnar var  tvíþættur. Annars vegar að koma Sonju frá Þýskalandi í skólann og hins vegar að finna skólabúning fyrir mig. Það var ekkert mál að fá skólastjórann til að taka við Sonju en það gekk ekki alveg eins vel með að finna skólabúning. Eins og þið kannski vitið þá er S-Amerískt fólk í flestum tilfellum ekki svo hávaxið. Það var því lítið um föt sem pössuðu á mig. Ég gat þó fundið stuttbuxur og stuttermabol fyrir íþróttatíma. Seinni part mánudagsins var fundur heima hjá Vila með öllum skiptinemunum á svæðinu og fjölskyldum þeirra. Eftir fundinn fór ég heim með fjölskyldu Kan frá Tælandi. Alida sem ég var hjá býr bara ein og getur ekki komið mér í skólann á morgnana. Á heimilinu hennar Kan búa Jorge (pabbinn), Patricia (mamman), Rosa (systir - 15 ára), Melanie (systir - 11 ára) og Francesco (bróðir - 9 ára). Það er gott að vera kominn til fjölskyldu, meira líf á heimilinu.

Á miðvikudaginn var fyrsti dagurinn í skólanum. Það var eiginlega frekar crazy! Fyrir það fyrsta þá eru allir í skólabúningum. Mér leið svolítið eins og ég væri í Hogwarts. Skólabúningar eru samt frekar sniðugir. Maður þarf aldrei að hugsa um í hverju maður ætli að fara, það er ekkert val. Í ljósi þess að ég er hvítur og hávaxinn þá leið mér svolítið eins og dýri í dýragarði þarna. Allir voru að stara á mig og spyrja mig spurninga eins og: Hvað heitirðu? Hvaðan ertu? Hvar í ósköpunum er Ísland? Þetta var samt bara gaman og allir ótrúlega vingjarnlegir. Landafræðitíminn var frekar fyndinn. Við eyddum öllum tímanum í að horfa á youtube-myndbönd um hvernig múslimar eru að taka yfir heiminn með því að eignast mikið af börnum. Kennarinn, Alfredo, hefur greinilega miklar áhyggjur af þessu (ég skildi myndböndin af því að það var enskur texti).

Á fimmtudaginn var einhver uppákoma. Allir fjórðubekkir (ég er í 4.A) komu saman í samkomusalnum í skólanum og allir byrjuðu að syngja. Þegar þau voru búin að syngja sama lagið svona 4-5 sinnum fóru allir aftur í stofurnar sínar og dagurinn hélt áfram. Ég held að þetta hafi verið æfing fyrir einhverja keppni en það er ekki staðfest... Á leiðinn heim úr skólanum stoppuðum við hjá manni sem var að selja ananas (piño) úti á götu. Þetta var án efa besti ananas sem ég hef smakkað. Ávextirnir hérna eru almennt mjög góðir. Þar sem drykkjarvatn er frekar dýrt drekka Perúbúar mikið af ávaxtadjús og þá er ég ekki að tala um svona fernudjús sem mauður kaupir í Bónus heldur djús úr ferskum ávöxtum sem er búinn til heima. Mjög góðir.

Ég skil frekar lítið af því sem gerist í skólanum. Kennararnir tala og tala á hraðri spænsku og ég sit bara og læt líta út fyrir að ég viti hvað sé í gangi. Það er samt bara eðlilegt og kemur allt með tímanum :)

Á föstudaginn var DJ keppni í skólanum eftir skóla. Öllum nemendunum var safnað saman í portinu og svo kom fulltrúi frá hverjum árgangi og DJ-aði. Frekar fyndið að vera í trúarbragðatíma aðra stundina og svo á DJ keppni hina. Flippaður skóli.

Á laugardagskvöldið fór ég með fjölskyldunni á Plaza de Armas, aðaltorg Trujillo (sjá mynd).



Það er mjög gaman að koma niður í miðbæinn. Fullt af flottum byggingum frá nýlendutíma Spánverja, fullt af fallegum styttum og ýmislegt að gerast. Þegar við vorum að rölta um torgið tóku nokkrir söngelskir háskólanemar í sérstökum búningum sig til og byrjuðu að syngja og spila fyrir okkur. Þeir spiluðu allskonar þjóðleg perúsk lög. Á öðrum stað á torginu voru nokkrir strákar að breika. Eftir að hafa rölt um miðbæinn fórum við út að borða á stað sem býður upp á perúska kjúklingarétti, mjög gott :)

Í gær fórum við í kirkju, nánar tiltekið gulu dómkirkjuna sem þið sjáið á myndinni hérna fyrir ofan. Hún er fallega að utan en mikið fallegri að innan. Eftir messu fórum við heim og slöppuðum af restina af deginum.

Þetta er svona það helsta sem hefur á daga mína drifið undanfarið :)

Chao!

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gaman að heyra frá þér á þessu bloggi! Mjög skemmtilegt blogg. Mér líður næstum því eins og ég sé bara kominn til Perú sjálfur. Hafðu það gott og gangi þér vel með spænskunna, ég fylgist með.

Pétur

Nafnlaus sagði...

Það er alltaf gaman að lesa bloggin þín og fylgjast með þér og einnnig að sjá myndirnar á FB . Ég reyni að vera dugleg að fylgjst með þér .
Vona að þú fáir skólabúining sem fyrst.

Góð kveðja,
Elísabet

Nafnlaus sagði...

Ert svo flottur! Óska þér alls hins besta, ég les alltaf það sem þú skrifar vinur minn :)
Keep your head up!

Biggi SHe